Sport

Mayweather eldri ásakar Pacquiao um steranotkun

Ómar Þorgeirsson skrifar
Manny Pacquiao og Floyd Mayweather  eldri fyrir bardaga þess fyrrnefnda gegn Ricky Hatton.
Manny Pacquiao og Floyd Mayweather eldri fyrir bardaga þess fyrrnefnda gegn Ricky Hatton. Nordic photos/AFP

Hnefaleikaþjálfarinn Floyd Mayweather eldri hefur ráðlagt syni sínum Floyd Mayweather yngri að hugsa sig tvisvar um áður en hann ákveður að mæta Manny „Pac-Man" Pacquiao, nýkrýndum WBO-veltivigtarmeistara, í hringnum.

Mayweather yngri kvaðst í nýlegu viðtali vera meira en til í að mæta Pacquiao til þess að heimurinn gæti séð hver sé besti pund fyrir pund hnefaleikamaðurinn í dag en Mayweather eldri ráðleggur honum hins vegar að sniðganga bardagann og telur að Pacquiao sé búinn að ná jafn langt og raun ber vitni um vegna steranotkunar.

„Ef ég væri í sömu sporum og sonur minn þá myndi ég ekki mæta Pacquiao. Hvort sem hann telji sig geta unnið hann eða ekki þá er eitthvað bogið við framfarirnar sem Pacquiao er búinn að sýna á ferli sínum. Þær benda aðeins til eins og það er notkun stera eða ólöglegra vaxtarhormóna," er haft eftir Mayweather eldri í viðtali við bandaríska dagblaðið Newsday.

Mayweather eldri var þjálfari Ricky Hatton þegar Pacquiao niðurlægði Bretann í hringnum síðasta sumar þannig að ekki skal fullyrt hvað Mayweather eldri gengur til með orðum sínum. Hvort hann hafi einhverjar sannanir máli sínu til stuðnings eða hvort hann vilji bara koma höggi á Pacquiao í sálfræðistríði fyrir mögulegan bardaga gegn Mayweather yngri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×