Sport

Roach: Cotto verður pottþétt rotaður

Ómar Þorgeirsson skrifar
Manny Pacquiao.
Manny Pacquiao. Nordic photos/AFP

Freddie Roach hnefaleikaþjálfari er sannfærður um að skjólstæðingur sinn Manny „Pac-Man" Pacquiao muni vinna WBO-titilbardaga sinn í veltivigt gegn núverandi meistaranum Miguel Cotto.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Cotto en hann verður pottþétt rotaður í þessum bardaga. Manny hefur aldrei verið í betra formi en hann er nú og hraði hans og fótavinna er skuggaleg," segir Roach.

Veðbankar eru á sama máli og Roach en þrátt fyrir að Cotto sé núverandi WBO-veltivigtarmeistari er Pacquiao talinn mun sigurstranglegri.

Pacquiao er að færa sig upp um þyngdarflokk til þess að berjast við Cotto en hefur vitanlega verið sigursæll í léttari þyngdarflokkum og er margfaldur meistari þar.

Bardaginn fer fram í MGM Grand Garden-höllinni í Las Vegas í Bandaríkjunum aðfaranótt sunnudags og er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×