Lífið

Andri fær peninga í verðlaun

Andri Snær Magnason rithöfundur. mynd frettabladid
Andri Snær Magnason rithöfundur. mynd frettabladid
Tilkynnt var á fullveldisdaginn að Andri Snær Magnason væri þess heiðurs aðnjótandi að fá Kairos-verðlaunin þýsku sem stofnun Alfreds Toepfer í Hamborg veitir listamönnum sem hafa mótandi áhrif á samtíð sína.

Verðlaunin verða afhent 28. febrúar 2010 og nemur verðlaunaféð 75.000 evrum. Alfred Toepfer-stofnunin hefur starfað frá 1931 og er staðsett í heimaborg Alfreðs, Hamborg, þar sem hann rak verslun og átti jarðir. Hún stendur fyrir margháttuðu starfi og eru Kairos-verðlaunin aðeins hluti af umfangsmiklu menningarstarfi sem stofnunin annast. Þessi verðlaun eru ætluð listamönnum á sviði myndlistar, tónlistar, arkitektúrs, kvikmyndunar, ljósmyndunar, bókmennta og fjölmiðlunar. Verðlaunin eru nefnd eftir gríska guðinum Kairos sem var guð hinnar „réttu stundar“ og eru hugsuð sem hvatningarverðlaun.

Alfred Toepfer-stofnunin hefur um langt skeið veitt verðlaun á sviði menningar og lista, og er fólk eins og Harold Pinter, Pina Bauschs, Imre Kertész og Ólafur Elíasson meðal þeirra sem þau hafa hlotið.

Dómnefndin, sem í sitja þekktir áhrifamenn á sviði menningarmiðlunar á þýska málsvæðinu, byggði val sitt meðal annars á því að höfundi hafi tekist að snúa við friðsælu sambandi skálda við náttúruna, í stað hyllingar hvetji hann til virkni. Í áliti hennar segir: Andri Snær „telur ekki að ljóðlist og barátta í þágu móður jarðar, fagurfræðileg skynjun og friðsamleg mótmæli útiloki hvert annað, heldur styðji þau hvert annað“. Enn fremur að bók hans Draumalandið, sem kom út árið 2006, þar sem hann fjallar um áhrif stóriðju á íslenska náttúru hafi átt sinn þátt í valinu.

Í fréttatilkynningu Alfred Toepfer-stofnunarinnar segir: „Með húmor og sannfæringarkrafti ljær hann óhugmyndafræðilegri en kraftmikilli grasrótarhreyfingu á Íslandi rödd sína og sköpunarhæfileika.“ Ekki er ljóst hvaða aðgang dómnefndin hefur haft að verkum Andra þó þau hafi farið víða.

Fyrr í vikunni voru tvær bóka Andra valdar vinsælastar í tengslum við tilnefningar Íslensku bókmenntaverðlaunanna og stóð valið milli verka sem tilnefnd höfðu verið frá upphafi. Þá er Andri nýsnúinn heim frá kvikmyndahátíðinni í Amsterdam þar sem Draumalandið var sýnt en myndin er nú komin í alþjóðlega dreifingu. Andri vinnur nú ásamt Þorleifi Arnarssyni að frágangi texta fyrir leiksýninguna Eilíf óhamingja sem flutt verður í Borgarleikhúsinu á komandi ári.

pbb@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.