Körfubolti

Teitur: Hlakka til vetrarins ef þetta er það sem koma skal

Elvar Geir Magnússon skrifar
Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson.

Bikarmeistarar Stjörnunnar unnu KR í hörkuleik um titilinn meistarar meistaranna í kvöld. Teitur Örlygsson var verulega ánægður með sitt lið og segir leikinn gefa góð fyrirheit um skemmtilegan vetur.

„Þetta var virkilega gaman. Við spiluðum glimrandi fyrri hálfleik, sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél og varnarleikurinn var virkilega góður. Síðan skaut Brynjar (Þór Björnsson) þeim inn í leikinn og fór illa með okkur á köflum. En ég er mjög ánægður með að við skulum vera hér á útivelli og ekki brotna. Við stigum fastar í lappirnar og unnum sannfærandi," sagði Teitur Örlygsson sem heldur áfram að ná frábærum árangri með Stjörnuliðið.

„Það voru hörkulæti í þessum leik og ef þetta er það sem koma skal þá hlakka ég til vetrarins. Menn lögðu sig 100% fram og frábær tilþrif á köflum."


Tengdar fréttir

Stjarnan vann eftir spennandi viðureign gegn KR

Stjarnan er meistari meistaranna í karlaflokki eftir sigur á KR 80-89 í DHL-höllinni í kvöld. Garðbæingar urðu bikarmeistarar á síðustu leiktíð og lögðu Íslandsmeistarana í þessum árlega leik en hann var fyrirtaks skemmtun fyrir áhorfendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×