Viðskipti innlent

Stór skref í haust

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Franek Rozwadowski
Franek Rozwadowski Mynd/Arnþór

„Með lækkun stýrivaxta getur skapast hætta á gengisfalli sem gæti reynst mjög erfitt að snúa til baka," segir Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrirssjóðsins (AGS) á Íslandi.

Franek hélt erindi um framgang efnahagsáætlunar AGS hér á hádegisfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í gær.

Hann benti á að aðgerðaáætlun Seðlabankans og AGS í peningamálum væri sem skip í þoku. Mjög erfitt sé að stýra málum. Á sama tíma og stærstur hluti lána heimila landsins sé verðtryggður í krónum séu skuldir fyrirtækja landsins í erlendri mynt. Erfitt sé að feta stigið því gengi krónunnar skipti öllu máli í báðum tilvikum. Megintilgangurinn felist í því að halda genginu stöðugu.

Franek sagði framfylgni aðgerðaáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda hafa tafist umfram áætlanir. Stjórnarskipti og tæknileg vandamál, svo sem tafir á mati á efnahagsreikningi bankanna, hafi dregist lengur en gert var ráð fyrir. „Það var óheppilegt því mjög liggur á að ljúka málinu," segir hann.

Franek telur mikilvæg skref í átt til bata efnahagslífsins verða stigin á næstu tveimur mánuðum. Bæði sé útlit fyrir að endurskoðun bankanna ljúki fljótlega auk þess sem stefnt sé að því að kynna yfirstjórn AGS endurskoðaða áætlun seint í júlí eða í ágúst. Í kjölfarið kunni gjaldeyrishöftum að verða aflétt í áföngum. Seðlabankinn verði að vera búinn undir skell enda megi reikna með að verulega gangi á gjaldeyrisforðann þegar höftin verða afnumin.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×