Lífið

Opnar álfakaffihús í Hellisgerði

Græna kaffihúsið Mikil jólastemning ríkir á Græna kaffihúsinu hjá Sigríði sem opnaði í Hellisgerði í Hafnarfirði um helgina. Fréttablaðið/Vilhelm
Græna kaffihúsið Mikil jólastemning ríkir á Græna kaffihúsinu hjá Sigríði sem opnaði í Hellisgerði í Hafnarfirði um helgina. Fréttablaðið/Vilhelm

„Ég missti vinnuna svo núna er ég bara að skapa mér atvinnutækifæri og lífga við þennan garð,“ segir Sigríður Friðriksdóttir sem opnaði um helgina Græna kaffihúsið í lystigarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði.

„Þetta er pínulítið hús inni í garðinum sem var byggt 1905. Það var upphaflega byggt sem íbúðarhúsnæði og hér bjó fjölskylda og rak kaffihús Oddrúnar. Síðan hefur ekki mikið verið gert þar,“ útskýrir Sigríður sem ætlar að hafa álfa og hulduveruþema á kaffihúsinu auk þess sem hún selur íslenskt handverk.

„Þetta er svona álfakaffihús, svolítið dularfullt og öðruvísi. Ragnhildur Jónsdóttir ætlar meðal annars að bjóða upp á lestur á tarot- eða álfaspilum og álfaspilin sem hún hannar verða til sölu, en hún er alin upp í lystigarðinum og sér álfana.

Kaffihúsið er svo lítið að það er eiginlega bara svona baðstofustemning þar sem allir sitja saman og það eru gærur á bekkjunum,“ segir hún brosandi.

Á matseðli Græna kaffihússins kennir ýmissa grasa. „Ég er til dæmis með belgískar vöfflur, jólaglögg, heitt súkkulaði, stollen-jólabrauð og heilsubúst-drykki. Það er stílað svolítið inn á fólk sem er í göngutúr og getur komið og fengið eða tekið með sér álfabúst. Svo er ég með gott uppáhellt lífrænt kaffi,“ bætir hún við. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.