Körfubolti

Páll Kristinsson: Njarðvík eða hættur

Páll Kristinsson
Páll Kristinsson Mynd/Víkurfréttir/Jón Björn

Körfuknattleiksmaðurinn Páll Kristinsson sem lék með Grindavík í vetur reiknar ekki með að spila með liðinu á næstu leiktíð.

Páll segist lítið hafa hugsað um sín mál eftir að úrslitakeppninni lauk, en í samtali við Vísi staðfesti hann að hann væri að íhuga að spila með fyrrum félögum sínum í Njarðvík næsta vetur.

"Það hefur verið mjög erfitt fyrir mig að stunda æfingar vegna anna í vinnu og það er ekki auðvelt að sameina erfiðisvinnu og að spila á þessu stigi," sagði Páll í samtali við Vísi.

Vísir heyrði orðróm þess efnis að Páll myndi annað hvort spila með Njarðvík næsta vetur eða hreinlega leggja skóna á hilluna.

"Já, það er sitt hvað til í því. Ég náði ekki að æfa nógu vel með Grindavík af því ég var að vinna á vöktum og missti þriðja hverja viku úr," sagði Páll.

Hann segist ekki ætla að ákveða sig endanlega fyrr en síðar í sumar. "Ég hef ekki mikið hugsað um þetta. Mann langar kannski ekki að hætta alveg, en vinnan gerir þetta erfitt. Ætli ég fari ekki að hugsa um þetta í maí eða júní. Ég reikna að minnsta kosti ekki með því að spila áfram í Grindavík," sagði Páll að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×