Sport

Federer í úrslit í sjöunda sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Federer er kominn í úrslitin.
Roger Federer er kominn í úrslitin. Nordic Photos / AFP

Roger Federer tryggði sér í dag sæti í úrslitum einliðaleiks karla á Wimbledon-mótinu í tennis í sjöunda sinn á ferlinum.

Federer mætti Þjóðverjanum Tommy Haas í undanúrslitunum í dag og hafði betur í þremur settum, 7-6, 7-5 og 6-3.

Haas stóð í Federer framan af en sá síðarnefndi reyndist einfaldlega of sterkur í dag og gaf í raun aldrei færi á sér. Hann tapaði aldrei lotu þegar hann átti uppgjöf.

Þetta er sjöunda árið í röð sem Federer kemst í úrslit á Wimbledon. Hann vann í fyrstu fimm skiptin en tapaði fyrir Rafael Nadal í úrslitunum í fyrra. Nadal er frá núna vegna meiðsla.

Ef Federer fagnar sigri í úrslitunum á sunnudag mun hann vinna sitt fimmtánda stórmót í tennis sem er met. Federer deilir nú metinu með Pete Sampras.

Federer mætir annað hvort heimamanninum Andy Murray eða Andy Roddick frá Bandaríkjunum í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×