Körfubolti

Friðrik búinn að tapa átta leikjum í röð í Hólminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur. Mynd/Valli

Það hefur gengið illa hjá Friðriki Ragnarssyni að stjórna liði sínu til sigurs í Stykkishólmi en Friðrik mætir með sína menn í Grindavík í Hólminn á eftir til þess að reyna vinna þar sinn fyrsta sigur í sex ár.

Annar leikur Snæfells og Grindavíkur í undanúrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Liðin hans Friðriks hafa tapað átta síðustu leikjum sínum í Stykkishólmi þar af eru fjórir þeirra í úrslitakeppninni. Friðrik hefur tapað öllum fimm leikjum sínum í Hólminum sem þjálfari Grindavíkur en enginn þeirra hefur þó unnist með meira en níu stigum.

Grindavík vann 28 stiga sigur í fyrsta leik einvígisins, 110-82, og því ætti liðið að vera í góðri aðstöðu til að yfirbuga Stykkishólmsgrýluna í leiknum í kvöld.

Það munaði litlu að Grindavík næði því í úrslitakeppninni í fyrra en Snæfell sló þá Grindavíkur-liðið út úr úrslitakeppninni með tveggja stiga sigri, 116-114, eftir æsispennandi framlengdan leik.

Friðrik stjórnaði liði síðast til sigurs í Fjárhúsinu í Stykkishólmi 13. febrúar 2003 þegar Njarðvíkurliðið vann þar þriggja stiga sigur, 63-60. Teitur Örlygsson, núverandi þjálfari Stjörnunnar, átti mestan þátt í að Njarðvík vann þann leik en hann skoraði 8 af 14 stigum sínum á síðustu fjórum mínútum leiksins.

Síðustu átta leikir liða Friðriks Ragnarssonar í Hólminum:

Með Grindavík

14. apríl 2009 (úrslitakeppni) Snæfell +2 í framlengingu (116-114)

10. apríl 2009 (úrslitakeppni) Snæfell +8 (79-71)

1. mars 2009 (deild) Snæfell +1 (89-88)

7. mars 2008 (deild) Snæfell +3 (75-72)

1. mars 2007 (deild) Snæfell +9 (83-74)

Með Njarðvík

25. mars 2004 (úrslitakeppni) Snæfell +2 (91-89)

19. mars 2004 (úrslitakeppni) Snæfell +10 (97-87)

26. febrúar 2004 (deild) Snæfell +14 (85-71)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×