Körfubolti

Sjónvarpsskrekkurinn úr KR-ingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson og félagar í KR unnu flottan sigur í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson og félagar í KR unnu flottan sigur í kvöld. Mynd/VIlhelm

KR unnu í kvöld þrettán stiga sigur í Keflavík, 75-88 í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Iceland Express deild karla. Einhverjir voru farnir að halda að beinar sjónvarpsútsendingar færu illa í KR-liðið en það afsannaðist í kvöld.

KR hafði fyrir leikinn tapað tveimur síðustu leikjum sínum í "beinni" í vetur. Fyrst tapaði liðið 80-91 fyrir Grindavík í deildinni í Grindavík í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og svo tapaði liðið 76-78 fyrir Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum í Höllinni sem var í beinni útsendingu á RÚV.

KR vann fyrsta leikinn sem var sýndur beint með þeim á tímabilinu en það var deildarleikur á móti Keflavík í Keflavík. KR vann þann leik 88-97 en hann fór fram 16. janúar og var í beinni á Stöð 2 Sport.

KR-liðið hafði aftur á móti unnið alla hina 34 leikina sem höfðu ekki verið sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi en í kvöld var sjónvarpsskrekkurinn farinn úr liðinu og KR spilaði sinn besta leik fyrir framan sjónvarpsvélarnar.

Þetta var líka tímamótasigur fyrir KR-liðið því liðið vann sinn fyrsta leik í úrslitakeppni í Keflavík í 18 ár. KR var fyrir leikinn búið að tapa sjö leikjum í röð í Keflavík í úrslitakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×