Körfubolti

Páll Axel: Ég tala bara íslensku við hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson hefur hitt vel í leikjunum tveimur síðan að Darrel Flake kom til Grindavíkur.
Páll Axel Vilbergsson hefur hitt vel í leikjunum tveimur síðan að Darrel Flake kom til Grindavíkur. Mynd/Valli
Grindvíkingar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína frá því að þeir réðu til sín Darrel Flake en hann á þó enn nokkuð í land að komast í sitt besta form ef marka má leikinn við Stjörnuna í gær. Flake er með 18,5 stig og 7,5 fráköst að meðaltali á tæpum 25 mínútum í þessum sigrum á Blikum og Stjörnunni.

„Darrel Flake þarf nú ekki að mæta hérna og sýna okkur eitthvað. Hann er búinn að spila hérna í deildinni í fimmtán ár eins og ég sagði við hann. Ég tala bara íslensku við hann enda er hann nærri því búinn að spila hérna jafnlengi og ég," sagði Grindvíkingurinn Páll Axel Vilbergsson í léttum tón eftir leikinn í gær.

„Við vitum alveg hvað hann getur og við erum líka allir búnir að dekka hann. Hann er gríðarlega öflugur leikmaður en það vantar að koma honum inn í þetta og við erum þolinmóðir með það," segir Páll Axel sem segir Flake leggja mikið á sig við að komast í gott form á ný.

„Hann er duglegur. Ég er að vinna hérna í húsinu og hann er að koma hérna tvisvar til þrisvar á dag. Hann er að vinna í sínum málum," sagði Páll Axel og þjálfarinn Friðrik Ragnarsson er einnig þolinmóður.

„Ég vissi að það tæki alveg þrjár til fjórar vikur að ná honum í sæmilegt stand. Þetta er bara það góður leikmaður að ég er tilbúinn að bíða eftir því," sagði Friðrik sem þurfti að skipta Flake margoft útaf í gær til þess að hann næði að hlaða batteríin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×