Lífið

Ragnar sýnir á Sundance

Vinsæll listamaður. Verk Ragnars Kjartanssonar hefur verið valið til sýningar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar á næsta ári.  Fréttablaðið/gva
Vinsæll listamaður. Verk Ragnars Kjartanssonar hefur verið valið til sýningar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar á næsta ári. Fréttablaðið/gva

Verk eftir listamanninn Ragnar Kjartansson hefur verið valið til sýningar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar á næsta ári.

Verkið The End eftir listamanninn Ragnar Kjartansson hefur verið valið til sýningar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar. Á heimasíðu Sundance-hátíðarinnar er verkinu lýst sem „dáleiðandi“, en í verkinu syngur Ragnar og spilar á ýmis hljóðfæri í kanadísku Klettafjöllunum, verkinu er svo varpað á fimm skjái þannig að úr verður heilsteypt tónverk. Verkið er hið sama og hefur verið til sýnis á Feneyja-tvíæringnum í sumar, en honum lýkur nú á sunnudaginn og hefur Ragnar þá dvalið þar í sex mánuði og málað um hundrað og fjörutíu verk á þeim tíma.

Börkur Árnason, eigandi gallerís i8, segir Ragnar hafa vakið gríðarlega athygli með verki sínu á Feneyja-tvíæringnum og nú sé það orðið þannig að það séu fáir innan listaheimsins sem þekki ekki til hans. „Sýning hans í Feneyjum hefur vakið þess háttar athygli að það eru fáir í listaheiminum sem vita ekki hver Ragnar er. Verkið hefur að auki gengið eins vel og hugsast getur og á þessum tíma hafa orðið til hundrað og fjörutíu málverk,“ segir Börkur. Þess má geta að um 45 þúsund manns hafa heimsótt íslenska skálann í ár sem er 15 þúsund fleiri gestir en árið 2007.

The End verður sýnd á Sundance í flokki sem nefnist New Frontier og er Ragnar einn þrettán listamanna sem sýna í þeim flokki og eru verkin valin af sérstakri nefnd á vegum hátíðarinnar. Börkur segir það einkenna verkin í þessum flokki að þar renni myndlist og kvikmyndaformið saman í eitt.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu vel þetta hefur gengið hjá Ragnari og dagskráin er þétt hjá honum næsta árið. Hann er bókaður með sýningar úti um allan heim langt fram í tímann,“ segir Börkur að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.