Sænska verslanakeðjan H&M hagnaðist um 4,19 milljarða sænskra króna, jafnvirði rúmra 83 milljarða íslenskra, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 6,3 prósenta aukning frá í fyrra og þykir skjóta nokkuð skökku við í þeim efnahagsþrengingum sem plagað hafa heiminn.
Rekstrarhagnaður nam tæpum 5,6 milljörðum sænskra króna, sem er aukning um tæp tíu prósent.
Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal hefur eftir sænskum markaðssérfræðingi í gær að verslunin, sem er Íslendingum að góðu kunn, sé sterk þrátt fyrir erfiðar aðstæður á norrænu mörkuðunum og í Þýskalandi. Þá muni um að öll innkaup H&M séu í Bandaríkjadölum. Dollarinn seig mjög gagnvart sænsku krónunni á fyrri hluta árs og hagnaðist verslunin vel á því.
Tímamót verða í rekstri H&M á næstu dögum en þá tekur Karl-Johan Persson, barnabarn Erlings Persson, sem stofnaði H&M árið 1947, við forstjórastólnum. Faðir Karls-Johans, Stefan, vermir hann nú.