Sport

Jakob Jóhann: Var búinn að stefna á að bæta mig á þessu móti

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jakob Jóhann Sveinsson.
Jakob Jóhann Sveinsson. Mynd/Eyþór

Sundmaðurinn Jakob Jóhann Sveinsson úr Ægi fór mikinn á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug sem lauk í dag.

Jakob Jóhann setti Íslandsmet í öllum þremur keppnisgreinum sínum á mótinu og hjó þess fyrir utan nálægt Norðurlandametum og var vitaskuld sáttur í mótslok.

„Ég var búinn að stefna á að bæta mig á þessu móti þar sem ég ætla ekki á Evrópumótið í 25 metra laug. Það var því stefnan að toppa á þessu móti og fara svo að einbeita sér að næsta sumri og það gekk bara ágætlega eftir. Ég og þjálfarinn minn settum upp takmörk í ágúst og við höfum nú náð þeim öllum og nú verðum við bara að setjast niður og fara yfir hlutina aftur," segir Jakob Jóhann ákveðinn.

Breytingar á keppnisreglum sem gefa til kynna um að sundmenn megi bara vera í litlum sundskýlum taka gildi 1. janúar og Jakob Jóhann býður spenntur eftir því að það gangi í gegn en hann hefur notast við sundbuxur en ekki heilgalla eins og margir aðrir.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig maður stendur þegar reglubreytingarnar taka gildi. Ég er í sundbuxum og þær hjálpa til að mér finnst og sundgallinn á víst að gera enn meira. Það kemur í ljós hvað þetta hefur í för með sér þegar keppnin hefst á nýju ári," segir Jakob Jóhann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×