Lífið

Stofnuðu Framkvæmdafélag listamanna

Önnum kafnar Margrét og Harpa Fönn hafa í mörgu að snúast í nýstofnuðu fyrirtæki sínu, en þær gefa út bók og undirbúa myndlistarsýningu auk þess sem þær halda saumaklúbbakynningar á myndlist.Fréttablaðið/Valli
Önnum kafnar Margrét og Harpa Fönn hafa í mörgu að snúast í nýstofnuðu fyrirtæki sínu, en þær gefa út bók og undirbúa myndlistarsýningu auk þess sem þær halda saumaklúbbakynningar á myndlist.Fréttablaðið/Valli
„Það má segja að þetta sé alhliða aðstoð við myndlistarmenn," segir Margrét Áskelsdóttir listfræðingur, en hún hefur stofnað Framkvæmdafélag listamanna, eða Frafl, ásamt vinkonu sinni Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur lögfræðingi. Félagið stofnuðu þær í nóvember og er markmið þess að skapa ný tækifæri fyrir myndlistarmenn, sjá um kynningu og sölu á verkum og gæta réttinda þeirra.

„Þegar ég útskrifaðist úr listfræðinni fór ég að vinna fyrir myndlistarkonuna Rakel McMahon. Stuttu eftir það leitaði Snorri Ásmundsson til mín og allt í einu var ég orðin eins konar aðstoðarkokkur þessara listamanna. Ég fann að mig vantaði meiri undirstöðu því ég kunni ekki inn á lögin. Þá leitaði ég til Hörpu Fannar og við ákváðum að gera þetta saman, stofnuðum fyrirtæki og erum í frumkvöðlafræði í HR núna, sem hefur hjálpað okkur mikið við uppbygginguna," útskýrir Margrét og segir þær stöllur hafa í mörgu að snúast, enda starfsemin tekið stakkaskiptum eftir að þær stofnuðu fyrirtækið og starfsemin meira verkefnatengd.

„Við erum að gefa út bók með Snorra Ásmundssyni, Beauty swift generation revolution, undirbúa sýningu með Rakel McMahon í Kronkron og svo erum við með saumaklúbbakynningar á myndlist sem við köllum gjarnan Tupperware-kynningar," segir Margrét brosandi. „Þá erum við að taka hámenninguna sem myndlistin er á annað stig svo það má segja að það sé pínulítill gjörningur í leiðinni," bætir hún við og segir örfá kvöld vera laus í saumaklúbbakynningar í desember, en áhugasamir geta sent póst á frafl@frafl.is.- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.