Körfubolti

Valur áfram og uppaldir Njarðvíkingar á heimleið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur.
Valur Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur. Mynd/Anton

Njarðvíkingar fengu góðar fréttir á heimasíðu sinni í gær en þar var tilkynnt að Valur Ingimundarson myndi þjálfa liðið áfram og að nokkrir fyrrverandi og uppaldir Njarðvíkingar væru á leiðinni heim.

Undir stjórn Vals Ingimundarsonar þá náði Njarðvík 4. sætinu í deildinni og komst í undanúrslit bikarsins en liðið datt síðan út úr átta liða úrslitum úrslitakeppninnar á móti nágrönnum sínum úr Keflavík.

„Við vorum mjög ánægð með hans störf síðast liðinn vetur við vægast sagt erfiðar aðstæður og því ákaflega glöð yfir að samningar hafi tekist um framhaldið", sagði fráfarandi formaður deildarinnar, Sigurður H. Ólafsson í samtali við umfn.is.

Þetta er þriðja törn Vals með liðið en hann þjálfaði einnig Njarðvík 1986-1988 og 1993-1995. Undir hans stjórn hefur Njarðvík unnið 94 af 116 leikjum sínum í deildarkeppninni og 21 af 32 leikjum í úrslitakeppni.

Það er von að góðum liðstyrk fyrir komandi tímabil samkvæmt heimasíðu Njarðvíkur. „Samkvæmt heimildum umfn.is, hyggjast nokkrir fyrrverandi og uppaldir Njarðvíkingar, halda heim í heiðardalinn og leika með Njarðvík á ný. Það er því útlit fyrir spennandi vetur hjá körlunum ef við höldum okkar mannskap og 4-5 öflugir leikmenn bætast við," segir á síðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×