Viðskipti innlent

Segir ESB aðild útilokaða án Icesave samnings

Fram kemur í blaðinu Financial Times (FT) í dag að sérfræðingar telji aðild Íslands að ESB útilokaða ef ekki verður gengið frá samkomulagi í Icesave deilunni.

Þótt íslensk stjórnvöld haldi því fram að ESB aðild og Icesave séu tvö aðskil mál telja sérfræðingar þeir sem FT vitnar í að Bretar og Hollendingar muni hindra inngöngu Íslands ef landið standi ekki við Icesave skuldbindingar sínar.

Sömu sjónarmið hafa raunar þegar komið fram á hollenska þinginu þar sem þingmenn hafa sagt að spyrða eigi saman aðild Íslands að ESB og Icesave.

„Umræðan um aðildina að ESB hefur flækst inn í eftirköstin af fjármálakreppunni þar sem endurgreiðsla á fé evrópskra innistæðueigenda er talin lykilatriði fyrir vonir (Íslendinga, innsk. blm) um að sameinast sambandinu," segir í umfjöllun FT um málið.

Meðal annars er vitnað í Svein Harald Öygard seðlabankastjóra sem segir að staðið verði við Icesave samkomulagið. Hann segir að útreikningar sýni að Ísland geti staðið við afborganir af Icesave skuldinni þótt það verði erfitt. Þetta kom fram á fundi í Seðlabankanum í gærdag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×