Körfubolti

Blikar þurftu að skipta um leikmenn áður en þeir komu til landsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur ekki gengið alltof vel hjá Blikum að finna eftirmann John Davis.
Það hefur ekki gengið alltof vel hjá Blikum að finna eftirmann John Davis. Mynd/Anton
Það hefur mikið gengið á í leikmannamálum Breiðabliks í Iceland Express deild karla síðustu daga en nú er ljóst að leikmennirnir tveir sem áttu að leysa John Davis af koma ekki til liðsins og Hrafn Kristjánsson, þjálfari liðsins þurfti því að hafa snögg handtök og finna nýja menn. Það tókst en aðeins annar þeirra verður með á móti Njarðvík í kvöld samkvæmt frétt á heimasíðu Blika.

Bojan Popovic og Josh Porter áttu að leysa af John Davis en Bojan má ekki fara úr landi nema fara í herinn fyrst og Josh hætti síðan við að koma rétt áður en hann átti að setjast upp í flugvélin til Íslands. Blikar hafa í staðinn samið við Jonathan Schmidt, 185 sm bakvörð með írskt vegabréf og Jeremy Caldwell, 203 sm miðherji og rúm 100 kg.

Jonathan var valinn í Úrvalslið annarrar deildar Háskólaboltans í Bandaríkjunum og leiddi skólann sinn í 8-liða úrslit þar sem þeir voru slegnir út af meisturunum. Hann var með um 19 stig, 4,5 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali síðustu tvö tímabil og þykir skytta góð.

Jeremy Caldwell var að útskrifast frá Jackson State þar sem hann var með 11,7 stig og 6,7 fráköst að meðaltali. Jackson State er í fyrstu deild og þykir Jeremy gríðarlega duglegur varnarmaður og frákastari sem hleypur völlinn mjög vel.

Samkvæmt frétt á heimasíðu Blika er von er á Jeremy til landsins á allra næstu dögum en ólíklegt verður að teljast að hann nái leiknum gegn KR á mánudagskvöldið. Jonathan kom til landsins í morgun og verður í Blikabúningi í Ljónagryfjunni gegn Njarðvíkingum í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×