Stjarnan komst í kvöld í undanúrslit VISA-bikars kvenna eftir 3-0 sigur á KR á gervigrasinu í Garðabæ. Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan vinnur KR í bikarkeppni kvenna.
Karen Sturludóttir kom Stjörnunni yfir í fyrri hálfleik og Björk Gunnarsdóttir innsiglaði síðan sigurinn með tveimur mörkum í blálokin.
KR hafði unnið alla fjóra bikarleiki liðanna fyrir kvöldið í kvöld þar af einu sinni í vítakeppni. Allir bikarleikir liðanna hafa farið fram í Garðabænum.
Þetta var þriðji sigur Stjörnuliðsins í bikarkeppninni í ár en markatala liðsins í VISA-bikarnum er 16-0.