Lífið

Óvissa um safaríferð Hildar

Hildur Helga og sonur hennar, Óðinn Páll, vonuðust til að komast í safaríferðina til Kenía á laugardag þrátt fyrir veikindi.
Hildur Helga og sonur hennar, Óðinn Páll, vonuðust til að komast í safaríferðina til Kenía á laugardag þrátt fyrir veikindi. Mynd/Anton Brink

„Vinkona mín fann þessa ferð fyrir mig á netinu," segir Hildur Helga Sigurðardóttir blaðamaður sem bókaði tveggja vikna safaríferð til Kenía um jólin ásamt syni sínum, Óðni Páli Ríkharðssyni, 15 ára. Áætluð brottför er í dag, en þegar blaðamaður náði tali af Hildi Helgu í gær ríkti óvissa um ferðina.

„Ég er komin með svo hrikalega hálsbólgu og syni mínum var að slá niður svo við erum bæði á pensilíni. Ég veit ekki hvort þetta er svínaflensa, en þetta er allavega svínsleg pest. Ég ætla nú samt að klára að pakka," sagði hún.

Aðspurð segir Hildur Helga að hana hafi lengi langað að fara í ævintýraferð með syni sínum. „Ferðin var bókuð í gegnum ferðaskrifstofuna Lastminute.com fyrir nokkrum dögum, undir einhverju sem heitir „last second". Þetta var ódýr ferð og bara heppni að fá hana, en aðalatriðið er að komast af landinu. Þetta eru fyrstu jólin án heimilishundsins Skottu sem dó fyrir hálfum mánuði, svo það ríkir mikil sorg á heimilinu," útskýrir hún.

Þrátt fyrir langt flug segist Hildur Helga spennt fyrir ferðinni.

„Mér skilst að meðalhitinn þarna sé 28 stig svo þetta verður mjög skrítið. Svo er flugið mjög langt, en það er farið frá Keflavík til Manchester, gist þar eina nótt og svo þaðan til Mombasa í Kenía sem tekur tólf tíma. Mér finnst bara gaman að fljúga en með öllum þessum öryggisreglum og sparnaði er enginn glamúr í flugi lengur," segir Hildur sem vonaðist til að komast í ferðina þrátt fyrir veikindin.

„Við krossum bara fingur. Sem betur fer er ég með góðan og traustan leigjanda sem fer hvergi um jólin þannig að húsið verður ekki mannlaust ef við komumst." - ag










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.