Lífið

Útgefandi Íslands yfirgefur skerið

Kveðjuhóf var haldið fyrir Baldvin Esra í Havarí á fimmtudagskvöldið. Að minnsta kosti tveir brjálaðir menn létu sjá sig. Fréttablaðið/Vilhelm
Kveðjuhóf var haldið fyrir Baldvin Esra í Havarí á fimmtudagskvöldið. Að minnsta kosti tveir brjálaðir menn létu sjá sig. Fréttablaðið/Vilhelm
„Af hverju er ég að stinga af svona rétt fyrir jól? Nú, ég er bara að láta mig hverfa með alla peningana!“ segir Baldvin Esra Einarsson, hugsanlega í gríni. Hann hefur verið afkastamesti tónlistarútgefandi landsins síðustu misserin og séð um útgáfufyrirtækin Kimi og Borgin með fleirum. Nú dælast út plötur frá þessum fyrirtækjum en Baldvin flytur til Gent í Belgíu með allt sitt hafurtask um helgina.

„Opinbera skýring er sú að ég er að fara að stýra útrásararmi Kimi/Borgin-samsteypunnar, en ég er nú bara að elta konuna mína. Hún er þarna í námi,“ segir hann.

Baldvin segir að Gent sé miðsvæðis og því hafi í sjálfu sér verið upplagt að flytja. „Samgöngur á allar tónleikahátíðir og ráðstefnur í Evrópu eru auðveldar og það er auðveldara að byggja upp tenglanet upp á kynningu og dreifingu. Þetta hentar afskaplega vel. Annars hefði maður ekkert verið að þessu.“

Í fjarveru Baldvins mun annað gott fólk stýra útgáfumálum hjá Kima og Borginni. Starfsemin á að halda áfram á fullum dampi og ýmsar plötur eru á teikniborðinu fyrir næsta ár. Hjá Kima kemur til dæmis út plata með Míri og Borgin verður með Seabear, Klassart og nýja plötu með Sigurði Guðmundssyni. „Ég mun stýra Evrópuútgáfunni,“ segir Baldvin. „Við erum að fara að gefa út FM Belfast í Frakklandi í desember og svo kemur hún út í restinni af Evrópu í janúar og í Bandaríkjunum í febrúar. Svo munu fleiri plötur koma út, EP-plata með Benna Hemm Hemm í apríl og svo bara bætist við jafnt og þétt.“ - drg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.