Lífið

Skottmarkaður við Kjarvalsstaði

Íbúar 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar ætla að endurtaka Skottmarkað frá því í haust á bílastæði Kjarvalsstaða á morgun milli klukkan 12 og 14.Mynd/Ottó Ólafsson
Íbúar 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar ætla að endurtaka Skottmarkað frá því í haust á bílastæði Kjarvalsstaða á morgun milli klukkan 12 og 14.Mynd/Ottó Ólafsson

Við höfum fengið mikil viðbrögð frá íbúunum í hverfinu og stæðið verður fullt af bílum,“ segir Steinunn Þórhallsdóttir formaður 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar. Íbúar hverfisins ætla að endurtaka svokallaðan Skottmarkað frá því í haust á bílastæði Kjarvalsstaða á morgun milli klukkan 12 og 14. Á skottmarkaði er heimilisbíllinn notaður sem sölubás og getur fólk selt allt milli himins og jarðar úr bílskottum sínum, en viðburðurinn er ókeypis og opinn öllum.

„Stefnan að þessu sinni er að hafa það dálítið jólalegt. Allir luma á gömlu dóti sem þeir eru hættir að nota en gæti reynst dýrmætt í jólapakkann eða skóinn. Einnig hvetjum við þá sem hafa föndrað eða bakað of mikið fyrir jólin að mæta og selja það sem ekki kemst í smákökudunkana,“ útskýrir Steinunn. „Eins eru jólaföt barnanna frá fyrri árum oft óslitin og þjóðþrifaverk að koma þeim í notkun að nýju,“ bætir hún við.

„Allir eru hjartanlega velkomnir, einstaklingar, foreldrafélög, og félagasamtök og við hvetjum alla til að mæta, stuðla að endurnýtingu verðmæta og ekki síst til að skapa gleði og samkennd í hverfinu okkar og borginni,“ segir Steinunn, en áhugasamir geta tekið frá stæði með því að senda póst á skottmarkadur@gmail.com. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.