Lífið

Hafdís Huld flytur til Íslands

Í óðaönn að pakka
Hafdís Huld og Alisdair Wright, sambýlismaður hennar, hafa fundið sér hús í Mosfellsdalnum og flytja til landsins eftir tvær vikur.
Í óðaönn að pakka Hafdís Huld og Alisdair Wright, sambýlismaður hennar, hafa fundið sér hús í Mosfellsdalnum og flytja til landsins eftir tvær vikur.

„Ég var orðin leið á að vera með heimþrá,“ segir söngkonan Hafdís Huld sem flytur til landsins eftir tvær vikur. Hafdís hefur verið búsett í Bretlandi undanfarin sjö ár, en hún og Alisdair Wright, sambýlismaður hennar, hafa fundið sér hús í Mosfellsdalnum og eru nú í óðaönn að pakka.

„Ég er búin að vera með þessa hugmynd í maganum í þrjú ár en þegar maður er búinn að búa úti svona lengi er aldrei rétti tíminn til að flytja heim. Umboðs- og plötufyrirtækjum finnst alltaf hentugra að hafa mann í næstu götu, en ég tók bara ákvörðun að nú væri rétti tíminn og það er ekki nema tveggja og hálfs tíma flug til London,“ útskýrir Hafdís. „Við Alisdair höfum verið að leita eftir húsi rétt fyrir utan borgina þar sem hægt er að setja upp stúdíó. Við fundum rétta húsið inni í Mosfellsdal og verðum næstu árin að gera það upp. Þetta er alveg draumastaður og ég sé Esjuna þaðan,“ segir hún.

Aðspurð segir hún það mikið verk að pakka niður og plana flutningana, en Hafdís gaf nýverið út plötuna Synchronised swimmers og hefur því í mörgu að snúast.

„Planið er að senda gámana heim til Íslands daginn áður en við förum í órafmagnað tónleikaferðalag um Sviss og Þýskaland, fara svo heim og þá verða gámarnir komnir. Þá hef ég viku til að mála stofuna, hengja upp jólaksraut og fá ensku tengdafjölskylduna í heimsókn yfir jólin. Mér ætti því ekki að leiðast, ég verð bara í málningagallanum með jólalögin í botni,“ segir hún og hlær. -ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.