Fjármálaeftirlitið varð ekki vart við að lög hefðu verið brotin, í rannsókn sinni á því hvort neikvæðum orðrómi hefði verið dreift um íslenskt fjármálakerfi og íslensku bankanna, í fyrravor.
Í svari eftirlitsins við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að í rannsókninni aflaði erlendur eftirlitsaðili upplýsinga um öll skuldabréfa- og skuldatryggingaviðskipti á ákveðnu tímabili, hjá nokkrum þeim stærstu bönkum sem viðkomandi hefur eftirlit með. Fjármálaeftirlitið nefnir hvorki eftirlitsaðilann né bankana.
Fram kom í rannsókninni að sögn Fjármálaeftirlitsins að fjöldi sjóða hefði átt viðskipti með skuldabréf og tryggingar í Kaupþingi, Glitni og Landsbanka.
Fjármálaeftirlitið segir að þessu hafi verið fylgt eftir og óskaði nánari upplýsinga um viðskipti þeirra sjóða sem bent var á á fyrstu mánuðum síðasta árs.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á ársfundi bankans í fyrra, eftir að skuldatryggingaálag á íslenska ríkið, sem þá var skuldlaust, hækkaði skarpt, að það lyktaði óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hefðu ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.
Fram kom á opinberum vettvangi um þær mundir að líklega kæmi fátt af viti, eins og það var orðað, út úr athugun Fjármálaeftirlitsins á þessu. Hins vegar kynni hún að vera gagnleg þar sem það sendi þeim sem kynnu að hagnast á íslenskum óförum þau skilaboð að fylgst væri með.
Íslensk stjórnvöld hafa aldrei nefnt hina rannsökuðu sjóði. Financial Times nefndi snemma í fyrra sjóðina DA Capital Europe, King Street, Merrill Lynch GSRG og Sandelman Partners. Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, nefndi svo í viðtali við Markaðinn í apríl fjóra sjóði aðra, Trafalgar, Ako Capital, Cheney og Landsdowne.
Vogunarsjóðirnir brutu ekki lögin
