Körfubolti

Iceland Express-deild karla: Keflavík vann Grindavík

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Mynd/Arnþór

Þrír leikir fóru fram í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld þar sem hæst bar Suðurnesjaslagur Keflavíkur og Grindavíkur þar sem Keflavík fór með sigur af hólmi. Þá vann Fjölnir sigur gegn Hamri og ÍR lagði lánlaust lið FSu að velli.

Keflavík hélt sigurgöngu sinni áfram þegar það vann 97-89 sigur gegn Grindavík en staðan var 52-44 í hálfleik.

Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæstur hjá Keflavík með 22 stig en Rashon Clark og Sverrir Þór Sverrisson skoruðu 21 stig hvor. Hjá Grindavík var Darrell Flake stigahæstur með 31 stig en Brenton Birmingham skoraði 17 stig.

Leikur Fjölnis og Hamars var jafn og spennandi allt fram á síðustu sekúndur þegar heimamenn reyndust sterkari og unnu 87-79 sigur.

Christopher Smith var stigahæstur Fjölnismanna með 26 stig en Tómas Heiðar Tómasson kom næstur með 22 stig. Hjá Hamri var Marvin Valdimarsson stigahæstur með 32 stig en Andre Dabney skoraði 15 stig.

Sigur ÍR gegn FSu var í raun aldrei í hættu þar sem gestirnir leiddu 11-20 eftir fyrsta leikhlutann og 23-31 í hálfleik. ÍR-ingar héldu svo uppteknum hætti í síðustu tveimur fjórðungunum og unnu að lokum sannfærandi 59-83 sigur.

Steinar Arason var stigahæstur hjá ÍR með 18 stig en Hreggviður Magnússon kom næstur með 16 stig og tók jafnframt 11 fráköst. Hjá heimamönnum í FSu var Aleksas Ziminickas stigahæstur með 20 stig.

Úrslitin í kvöld:

Keflavík-Grindavík 97-89 (52-44)

FSu-ÍR 59-83 (23-31)

Fjölnir-Hamar 87-79 (39-44)










Fleiri fréttir

Sjá meira


×