Körfubolti

Hlynur: Eigum enn nóg inni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson tekur frákast.
Hlynur Bæringsson tekur frákast. Mynd/Stefán

Hlynur Bæringsson, leikmaður og annar þjálfara Snæfells, var vitanlega ánægður með sigur sinna manna á Grindavík í dag.

Tvíframlengja þurfti leikinn þar til að Snæfell vann loks sigur. Með sigri hefði Grindavík tryggt sér sæti í úrslitunum en nú þurfa liðin að mætast aftur í Stykkishólmi á þriðjudagskvöldið.

„Við vorum langt yfir lengi vel í leiknum og vorum á einhvern óskiljanlega máta næstum búnir að kasta þessu frá okkur," sagði Hlynur eftir leikinn í dag. „Það hefði verið ansi skrautlegt að tapa þessum leik."

„En við sýndum mikinn styrk enda er það yfirleitt liðið sem jafnar sem vinnur framlengingarnar. En við náðum að halda haus og klára."

„Nú viljum við koma aftur til Grindavíkur í fimmta leik. Fyrst hin serían er búin (KR - Keflavík) er um að gera að fá fjör í þessa."

Hann segir að munurinn á leik liðsins í dag og áður í úrslitakeppninni hafi verið andlegi þátturinn. „Það var mun léttar yfir okkur. Við gátum leyft okkur að spila án þess að finna fyrir þrýstingi. Ég er mjög ánægður með hvernig menn komu stemmdir í leikinn - það hefði verið auðvelt að gefast bara upp."

„Ég held að það sé ekki spurning að þetta sé okkar besti leikur í úrslitakeppninni til þessa enda erum við búnir að vera slakir - bæði gegn Stjörnunni og nú gegn Grindavík. En við eigum líka fullt inni - það er alveg klárt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×