Má fara aðra leið? Þorsteinn Pálsson skrifar 10. mars 2009 06:30 Tvö framboð hafa sprottið úr grasrótinni. Úr röðum beggja hefur komið fram snörp gagnrýni á frumvörp til breytinga á kosningalögum og stjórnarskrá. Hún vekur aftur spurningu um jarðsamband forystu ríkisstjórnarinnar. Um langan tíma hefur því sjónarmiði smám saman vaxið fiskur um hrygg að styrkja þurfi Alþingi. Atburðir síðustu mánaða hafa eflt þá hugsun. Forsætisráðherra bregst við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp sem beinlínis veikir Alþingi á þann veg að flytja frá því áhrif og völd í mikilvægum efnum. Auk þess sem Alþingi veitir ríkisstjórnum umboð er vald þess þríþætt: Það felst í lagasetningu, fjárveitingarákvörðunum og stjórnarskrárgjöf. Nú á að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu. Þegar slíkri meginstoð er kippt undan þjóðþinginu veikist staða þess að sama skapi. Eitt helsta atriðið við stjórnarskrársmíð er að forðast óljósar stefnuyfirlýsingar sem dómstólar verða síðar meir að gefa efnislegt innihald. Auðlindaákvæðið í tillögu forsætisráðherra er þessu marki brennt. Með loðnu orðalagi og óskýrri hugtakanotkun er vald flutt frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins inn í dómssalina. Það er öfugþróun sem veikir löggjafarvaldið. Fram til þessa hefur Samfylkingin gert kröfu til þess að stjórnarskráin hafi að geyma skyldu til að skattleggja auðlindanýtingu. Þetta á rætur í áliti auðlindanefndar frá því í byrjun aldarinnar. Nú söðlar forsætisráðherra um og fellur frá þessari kröfu. Ástæða er til að fagna þeim umskiptum. Líklega hefði stjórnarskrárnefnd lokið störfum á á nokkrum mánuðum fyrir þremur árum ef Samfylkingin hefði þá þegar verið tilbúin til þessarar stefnubreytingar. Hún er einnig skýr vísbending um að Alþingi geti á stuttum tíma náð saman um heildstæðar breytingar á stjórnarskránni ef ríkisstjórnin er reiðubúin til að gefa þessu þingi eða því næsta eðlilegt svigrúm til málefnalegrar umfjöllunar. Í frumvarpi forsætisráðherra er eitt annað atriði sem horfir til framfara. Þar er að finna tillögu stjórnarskrárnefndar frá því fyrir tveimur árum um að breyta megi stjórnarskránni með samþykki Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu án þingkosninga í millitíðinni eins og nú er áskilið. Ákvæðið sýnist þó vera óvirkt á næsta kjörtímabili. Ekki verður séð að tvö þjóðþing vinni að stjórnarskrárbreytingum samtímis. Það væri stjórnskipuleg ringulreið. Forsætisráðherra Samfylkingarinnar getur ekki málað auðmýkingu flokksins sterkari litum en með því að opna stjórnarskrármálið án þess að opna möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra boðar niðurskurð ætlar forsætis-ráðherra að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í eitt hundrað og fjóra og efna til fimm kosninga á næstu tveimur árum án þjóðaratkvæðis um afstöðu til Evrópusambandsins. Er hægt að fara aðra leið. Svarið er: Já. Fella má út önnur ákvæði í frumvarpinu en tillöguna um hvernig breyta á stjórnarskránni og bæta við ákvæði um aðild að alþjóðasamtökum. Þannig fengi næsta Alþingi svigrúm til að ljúka verkinu fyrir næsta vor og gæti þá lagt nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Slík málsmeðferð myndi tryggja öruggari og skjótari framgang málsins en ruglingsleg tillaga um stjórnlagaþing og veikingu Alþingis án farvegs fyrir lausn Evrópumálsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun
Tvö framboð hafa sprottið úr grasrótinni. Úr röðum beggja hefur komið fram snörp gagnrýni á frumvörp til breytinga á kosningalögum og stjórnarskrá. Hún vekur aftur spurningu um jarðsamband forystu ríkisstjórnarinnar. Um langan tíma hefur því sjónarmiði smám saman vaxið fiskur um hrygg að styrkja þurfi Alþingi. Atburðir síðustu mánaða hafa eflt þá hugsun. Forsætisráðherra bregst við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp sem beinlínis veikir Alþingi á þann veg að flytja frá því áhrif og völd í mikilvægum efnum. Auk þess sem Alþingi veitir ríkisstjórnum umboð er vald þess þríþætt: Það felst í lagasetningu, fjárveitingarákvörðunum og stjórnarskrárgjöf. Nú á að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu. Þegar slíkri meginstoð er kippt undan þjóðþinginu veikist staða þess að sama skapi. Eitt helsta atriðið við stjórnarskrársmíð er að forðast óljósar stefnuyfirlýsingar sem dómstólar verða síðar meir að gefa efnislegt innihald. Auðlindaákvæðið í tillögu forsætisráðherra er þessu marki brennt. Með loðnu orðalagi og óskýrri hugtakanotkun er vald flutt frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins inn í dómssalina. Það er öfugþróun sem veikir löggjafarvaldið. Fram til þessa hefur Samfylkingin gert kröfu til þess að stjórnarskráin hafi að geyma skyldu til að skattleggja auðlindanýtingu. Þetta á rætur í áliti auðlindanefndar frá því í byrjun aldarinnar. Nú söðlar forsætisráðherra um og fellur frá þessari kröfu. Ástæða er til að fagna þeim umskiptum. Líklega hefði stjórnarskrárnefnd lokið störfum á á nokkrum mánuðum fyrir þremur árum ef Samfylkingin hefði þá þegar verið tilbúin til þessarar stefnubreytingar. Hún er einnig skýr vísbending um að Alþingi geti á stuttum tíma náð saman um heildstæðar breytingar á stjórnarskránni ef ríkisstjórnin er reiðubúin til að gefa þessu þingi eða því næsta eðlilegt svigrúm til málefnalegrar umfjöllunar. Í frumvarpi forsætisráðherra er eitt annað atriði sem horfir til framfara. Þar er að finna tillögu stjórnarskrárnefndar frá því fyrir tveimur árum um að breyta megi stjórnarskránni með samþykki Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu án þingkosninga í millitíðinni eins og nú er áskilið. Ákvæðið sýnist þó vera óvirkt á næsta kjörtímabili. Ekki verður séð að tvö þjóðþing vinni að stjórnarskrárbreytingum samtímis. Það væri stjórnskipuleg ringulreið. Forsætisráðherra Samfylkingarinnar getur ekki málað auðmýkingu flokksins sterkari litum en með því að opna stjórnarskrármálið án þess að opna möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra boðar niðurskurð ætlar forsætis-ráðherra að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í eitt hundrað og fjóra og efna til fimm kosninga á næstu tveimur árum án þjóðaratkvæðis um afstöðu til Evrópusambandsins. Er hægt að fara aðra leið. Svarið er: Já. Fella má út önnur ákvæði í frumvarpinu en tillöguna um hvernig breyta á stjórnarskránni og bæta við ákvæði um aðild að alþjóðasamtökum. Þannig fengi næsta Alþingi svigrúm til að ljúka verkinu fyrir næsta vor og gæti þá lagt nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Slík málsmeðferð myndi tryggja öruggari og skjótari framgang málsins en ruglingsleg tillaga um stjórnlagaþing og veikingu Alþingis án farvegs fyrir lausn Evrópumálsins.