Lífið

Rólega Ellen er ofvirk

Ellen er í skýjunum yfir hljómsveitinni sem spilar með henni.Fréttablaðið/anton
Ellen er í skýjunum yfir hljómsveitinni sem spilar með henni.Fréttablaðið/anton

„Það verður allt lagt í sölurnar og ég er með svo ótrúlega flott band með mér. Þarna eru Pétur Ben, Ómar og Óskar Guðjónssynir, Magnús Tryggvason Elíassen, Eyþór Gunnarsson og Þorsteinn Einarsson (í Hjálmum), sem tekur ótrúlega flott slide-gítarsóló á diskinum. Dætur mínar verða líka og Elín Ey ætlar að spila á undan. Ég tek öll lögin á diskinum og nokkur lög eftir Magga Eiríks líka."

Þetta segir Ellen Kristjánsdóttir um útgáfutónleika sína fyrir plötuna Draumey sem fara fram í Fríkirkjunni í kvöld. Draumey er að stórum hluta unnin með Pétri Ben og er í hugljúfum og rólyndislegum dúr. Hvernig stendur eiginlega á öllum þessum rólegheitum hjá Ellen?

„Það er nú það!? Ég er allavega ekki neitt sérstaklega róleg sjálf. Eiginlega bara hrikalega ofvirk og með athyglisbrest! Núna er ég komin með svo margar hugmyndir að ég á erfitt með að einbeita mér að þessu verkefni."

Þannig að við erum kannski að tala um brjálaða teknóplötu næst?

„Það er draumurinn. Ég er ekki að djóka! Kannski fæ ég son minn 12 ára til að gera hann með mér. Nei, ég segi svona. En mér þykir ofsalega gaman líka að syngja kraftmikil lög, blús og soul til dæmis."

Þannig að það er síðasti séns að sjá rólegu Ellen í kvöld?

„Ha, ha, ha, já ætli það ekki bara. Ætli næsta plata heiti ekki bara Ellen hleypur um."- drg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.