Körfubolti

Jón Arnar: Töpuðum þessu á fráköstunum

Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR
Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR Mynd/Arnþór

"Þetta var stál í stál leikur með mikilli baráttu. Ég var ánægður með vörnina hjá okkur en við töpuðum þessu á fráköstunum. Þeir hirtu 16 sóknarfráköst og fengu fyrir vikið fleiri tækifæri í sókninni," sagði Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR eftir að hans menn töpuðu fyrir KR 82-73 í hörkuleik í Iceland Express deildinni í kvöld.

ÍR hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni, gegn Njarðvík og KR. Jón Arnar segir sína menn ekki hengja haus yfir því en er aldrei sáttur við að tapa.

"Við förum ekkert í þunglyndi yfir þessu en ég vildi auðvitað vinna þessa leiki. Fyrsti leikurinn var allt of köflóttur hjá okkur en þessi var skárri. Það voru hinsvegar fráköstin sem kostuðu okkur þennan leik," sagði þjálfarinn.

ÍR-ingum hefur eflaust brugðið mikið undir lok leiksins í kvöld þegar Sveinbjörn Claessen lenti í samstuði og datt sárþjáður í gólfið. Leikurinn var stöðvaður í nokkrar mínútur á meðan hlúð var að Sveinbirni, en hann gekk þó út úr húsinu studdur af félögum sínum að leik loknum og vonandi reynast meiðsli hans ekki alvarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×