Lífið

Fer með Jackson út á land

Söngvarinn Alan Jones verður í rauðu latexi á Jackson-sýningunni.
Söngvarinn Alan Jones verður í rauðu latexi á Jackson-sýningunni.

Söngvarinn Alan Jones, sem hefur að undanförnu tekið þátt í Michael Jackson-sýningunni á Broadway, íhugar að fara einn með sýninguna út á land ásamt lagahöfundinum Örlygi Smára. Fyrst ætla þeir að prufukeyra sýninguna á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi á föstudagskvöld. „Við ætlum að sjá hvernig gengur. Við ætlum að byrja á Spot og síðan er planið að fara með sýninguna um Ísland,“ segir Alan, sem verður á sviðinu í um það bil hálftíma, syngjandi helstu slagara poppkóngsins. „Þetta verður mjög gaman. Ég get ekki beðið,“ segir hann.

Stílisti Alans og umboðsmaður, Selma Ragnarsdóttir, hefur hannað fyrir hann nýjan, rauðan latexbúning sem hann ætlar að klæðast á Spot ásamt reyndar fleiri búningum. Þannig vill hann komast sem næst hinu fræga Jackson-útliti þar sem skrautlegir búningar voru sérlega áberandi.

Alan hefur í nógu að snúast því fyrir jólin ætlar hann að senda frá sér nýtt lag sem nefnist So Strange. Honum til halds og trausts við upptökurnar eru hljóðfæraleikararnir Börkur og Daði Birgissynir. Að sjálfsögðu er lagið undir áhrifum frá Michael Jackson en einnig gætir þar áhrifa sálarkóngsins James Brown.

Síðasta Jackson-sýningin á Broadway fyrir jól verður síðan á laugardaginn. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.