Lífið

Besti Laddinn krýndur á föstudag

Guðmundur Franklín og Eyþór Ingi keppa til úrslita í Laddanum á föstudagskvöldið.
Fréttablaðið/vilhelm
Guðmundur Franklín og Eyþór Ingi keppa til úrslita í Laddanum á föstudagskvöldið. Fréttablaðið/vilhelm

Í útvarpsþættinum Litla hafmeyjan á Rás 2 hafa Doddi litli og Andri Freyr Viðarsson staðið fyrir eftirhermukeppninni Laddinn síðustu vikurnar. Á föstudagskvöldið er komið að úrslitarimmunni sjálfri þegar Eyþór Ingi og Guðmundur Franklín takast á.

„Það kemur mér mikið á óvart hvað ég er kominn langt í þessu enda hef ég bara verið að fíflast meðal vina með þessar eftirhermur,“ segir Guðmundur. „Ég veit eiginlega ekki hverju er að þakka. Ég hef allavega ekki verið að safna saman fólki til að hringja inn!“

Keppnin fer þannig fram að tveir fara með Ladda-eftirhermur að eigin vali í hverjum þætti og svo ákveða hlustendur hver hefur staðið sig betur. Alls konar lið hefur reynt sig í Ladda-gríninu, frægir grínarar jafnt og óþekktir „menn úti í bæ“ - Pétur Jóhann, Steinn Ármann, Bjarni töframaður, Sveppi, Steini sleggja, Hemmi Gunn og Ómar Ragnarsson, svo einhverjir séu nefndir.

„Ég vil þakka ömmu minni fyrir þennan árangur,“ segir Eyþór Ingi. Hann er ekki óvanur keppnum í fjölmiðlum og sigraði í Bandinu hans Bubba sem kunnugt er. „Amma setti Ladda-plötu á fóninn þegar ég var smábarn. Laddi er búinn að vera í uppáhaldi síðan. Þetta varð meira að segja svo slæmt að það voru keyptar teiknimyndir ef ég vissi að hann var að lesa inn á þær.“

Eyþór er enn forfallinn Ladda-maður og á stórt safn. Hann veit ekki alveg hvaða Ladda-gaurar munu birtast á föstudaginn. „Ég hef aldrei undirbúið mig fyrir þetta. Ég man bara eftir einhverjum karakterum og prófa þá. Ég hef fíflast með nokkra áður og veit að ég næ þeim ágætlega.“

Eyþór segist ekkert stressaður fyrir keppnina – „en ég er þó skíthræddur við andstæðinginn!“

Guðmundur ber sig vel: „Eyþór er nokkuð góður, þetta verður hörkukeppni. Ég fer engar nýjar leiðir enda kann ekki góðri lukku að stýra að breyta út af vananum. Þórður húsvörður og yfirstrumpur eru þeir tveir sem mér finnst auðveldast að taka,“ segir hann. Guðmundur vinnur í verkstæðismóttökunni hjá Bílabúð Benna. Hann sér ekki fram á frekari afrek í skemmtanabransanum þrátt fyrir gott gengi í Laddanum. „Ég er bara að herma eftir skemmtikrafti en er nú ekki beinlínis skemmtikraftur sjálfur!“

Litla hafmeyjan hefst kl. 19.30 á föstudagskvöld en úrslit Laddans um hálftíma síðar. Allar keppnir hafa verið teknar upp á myndband og er hægt að sjá afraksturinn á Youtube.com með því að leita eftir „Laddinn“.

drgunni@frettabladid.is

Blóðugur ladda-bardagi Guðmundur Franklín og Eyþór Ingi keppa um titilinn besti Laddinn en þeir sem hafa reynt án árangurs eru allir „Strákarnir“, þeir Pétur Jóhann, Auddi og Sveppi, Hemmi Gunn, Ómar Ragnarsson, Steinn Ármann, Helgi Seljan og útvarpsmaðurinn Freyr Eyjólfsson, sem stakk upp á Ladda-eftirhermukeppninni við Dodda litla og Andra Frey.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.