Körfubolti

Keflvíkingar komu fram hefndum

Gunnar Einarsson var stigahæstur hjá Keflavík í kvöld
Gunnar Einarsson var stigahæstur hjá Keflavík í kvöld

Þrír leikir voru á dagskrá í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld og einn toppslagur í kvennaflokki.

Karlalið Keflavíkur vann stórsigur á Breiðabliki í Kópavogi 85-63 og hefndi þar með fyrir stórtap gegn Blikum á heimavelli sínum fyrr í vetur.

Gunnar Einarsson var stigahæstur hjá Keflavík með 18 stig, Sigurður Þorsteinsson 13 og Sverrir Þór Sverrisson 12 en hjá Blikum var Nemanja Sovic bestur með 21 stig og 8 fráköst.

Grindvíkingar rótburstuðu botnlið Skallagríms 117-67 í Grindavík. Páll Axel Vilbergsson skoraði 22 stig fyrir Grindavík, Nick Bradford var með 19 stig, 10 stoðsendingar og 6 fráköst og Páll Kristinsson var með 18 stig og 10 fráköst.

Hjá Skallagrími var Igor Beljanski atkvæðamestur með 21 stig og 15 fráköst og Landon Quick skoraði 20 stig, gaf 8 stoðsendingar og hirti 7 fráköst.

Loks vann FSu góðan sigur á Þórsurum í Iðunni á Selfossi 94-84. Sævar Sigurmundsson skoraði 27 stig og hirti 13 fráköst fyrir FSu, Christopher Caird skoraði 27 stig og hirti 11 fráköst og Árni Ragnarsson var með 20 stig og 11 fráköst.

Hjá Þór var Guðmundur Jónsson stigahæstur með 28 stig og Konrad Tota skoraði 20 stig og hirti 9 fráköst.

Staðan í IE deild karla

Í Iceland Express deild kvenna vann lið Hauka sigur á KR á Ásvöllum 65-57 í miklum baráttuleik. Slavica Dimovska skoraði 20 stig fyrir Hauka og Kristrún Sigurjónsdóttir 12.

Sigrún Ámundadóttir var stigahæst hjá KR með 14 stig og Margrét Kara Sturludóttir skoraði 6 stig, hirti 15 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum.

Staðan í IE deildum kvenna






Fleiri fréttir

Sjá meira


×