Lífið

Mælt með spilastokki Þorbjörns

Þorbjörn er ánægður með viðbrögðin við nýja spilastokknum.
Þorbjörn er ánægður með viðbrögðin við nýja spilastokknum.

„Auðvitað er þetta mikill heiður. Það er gaman að fá viðbrögð við því sem maður gerir,“ segir hönnuðurinn Þorbjörn Ingason hjá Íslensku auglýsingastofunni.

Breska viðskiptablaðið Financial Times birti nýlega lista yfir það frumlegasta, frískasta og traustasta í ferðaheiminum. Þar er nýr spilastokkur Icelandair valinn það besta sem hægt er að taka með sér úr flugvélum. Tyler Brúlé, stofnandi og ritstjóri tímaritanna Wallpaper og Monocle, tók listann saman og er hann birtur í heild sinni í nýjasta tölublaði þess síðarnefnda. Spilin eru afar þjóðleg, eru í víkingaþema og vísa í goðafræði.

„Það var kominn tími á að gera nýtt upplag að spilastokki fyrir Icelandair,“ segir Þorbjörn um tildrög þess að stokkurinn var hannaður. „Það var á óskalistanum hjá mér að gera spilastokk og við ákváðum að eyða aðeins meiri tíma í þetta en til var ætlast og reyna að gera eitthvað flott og sérstakt. Auðvelda leiðin hefði verið að gera venjulegan spilastokk og breyta bakhliðinni.“

Þorbjörn segir að forsvarsmenn Icelandair hafi strax verið mjög ánægðir með stokkinn og til marks um það var engin breytingatillaga lögð fram. „Það er frekar sjaldgjæft,“ segir hann. Viðbrögðin hafa verið góð, en Monocle er dreift í 150.000 eintökum um allan heim og er mjög virt á sínu sviði.

Sjálfur er Þorbjörn ekki mikið fyrir að spila og kíkir í mesta lagi í einn og einn pókerleik. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.