Viðskipti erlent

Stýrivextir aldrei lægri á evrusvæðinu

Bankastjóri evrópska seðlabankans hefur gefið í skyn að vextir á evrusvæðinu muni lækka frekar. Fréttablaðið/AP
Bankastjóri evrópska seðlabankans hefur gefið í skyn að vextir á evrusvæðinu muni lækka frekar. Fréttablaðið/AP

Evrópski seðlabankinn lækkaði stýrivexti í gær um fjórðung úr prósenti og standa þeir nú í 1,25 prósentum. Þótt stýrivextir á evrusvæðinu hafi aldrei verið lægri bundu fjárfestar vonir við að stýrivextir færu neðar.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir ákvörðunina olíu á eld gagnrýnenda sem telji bankann hafa dregið lappirnar í baráttu sinni gegn fjármálakreppunni. Bankinn tók ekki að lækka stýrivexti að ráði fyrr en í október í fyrra. Þá stóðu þeir í 4,25 prósentum.

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, gaf í skyn á vaxtaákvörðunarfundi í gær að vextirnir eigi eftir að lækka um 25 punkta hið minnsta til viðbótar.

Stýrivextir í Bandaríkjunum, Bretlandi og í Japan hafa verið lækkaðir hratt síðasta árið og liggja nú nálægt núlli. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×