Körfubolti

Teitur: Lentum á móti miklu betra liði

Elvar Geir Magnússon skrifar
Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson.

„Þeir voru skrefinu á undan okkur allan leikinn," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Keflavík og því ljóst að það nær ekki að verja bikarmeistaratitil sinn.

„Við vorum eins og kettlingar í okkar aðgerðum. Þeir voru mun grimmari og hirtu alla lausa bolta. Við vitum að þeir eru spila fast. Það var eins og mínir menn hefðu litla trú á þessu verkefni."

Stjarnan vann Keflavík þegar liðin mættust í deildinni, en hver er munurinn á þeim leik og þessum í kvöld? „Þá vorum við náttúrulega með fyrirliðann okkar sem átti stjörnuleik en spilaði ekki í dag. Þá var bara miklu meiri grimmd og menn höfðu trú," sagði Teitur.

Hann vonast þó til að Fannar Helgason verði orðinn klár í slaginn í næsta deildarleik Stjörnunnar sem er gegn Tindastóli.

„Þessi bikarkeppni var öskubuskuævintýri hjá okkur í fyrra. En við dveljum ekki lengur við þessa keppni, við verðum að halda okkar striki. Við lentum á móti miklu betra liði að þessu sinni. Við erum enn taplausir í deildinni og það tekur enginn af okkur"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×