Körfubolti

Fimm reyndustu mennirnir eru allir í Grindavíkurliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brenton Birmingham leikur sinn 25. leik í lokaúrslitum í dag.
Brenton Birmingham leikur sinn 25. leik í lokaúrslitum í dag. Mynd/Valli

Fimm Grindvíkingar hafa spilað flesta leiki í lokaúrslitum af þeim leikmönnum sem taka þátt í úrslitaeinvígi KR og Grindavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla. Einvígið hefst í DHL-Höllinni klukkan 16.00 í dag.

Nökkvi Már Jónsson hefur leikið flesta leiki eða 27 en Brenton Birmingham hefur spilað 24 leiki í úrslitaseríum. Þeir Páll Axel Vilbergsson (19), Helgi Jónas Guðfinnsson (18) og Páll Kristinsson (18) hafa líka allir leikið fleiri leiki en leikjahæsti KR-ingurinn.

Fannar Ólafsson hefur leikið flesta leiki KR-inga í lokaúrslitum eða 13 sem eru jafnmargir leikir og Grindvíkingurinn Arnar Freyr Jónsson er með á bakinu. Pálmi Freyr Sigurgeirsson er næstleikjahæsti KR-ingurinn með 8 leiki en Baldur Ólafsson hefur leikið 7 leiki í úrslitaeinvígum.

Það er líka mun meiri lokaúrslitareynsla í Grindavíkurliðinu en leikmenn liðsins eiga samtals 135 leiki að baki um titilinn eða 79 fleiri leiki en allt KR-liðið á til samtals í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×