Fastir pennar

Vonsvik

Fyrri ríkisstjórn fékk sænskan sérfræðing til að koma fram með tillögur um endurreisn bankakerfisins. Þær hafa nú verið birtar og samþykktar. Um margt eru þær almennar og óafgerandi. Eigi að síður veldur bæði stefnumörkunin og málsmeðferðin vonsvikum.

Fyrri ríkisstjórn sætti gagnrýni fyrir að ákveða veigamikil mál í bakherbergjum og halda Alþingi utangátta. Í þessu falli eru tillögur sænska sérfræðingsins ákveðnar sem stjórnarstefna eftir fárra mínútna kynningu í ríkisstjórn. Engin pólitísk umræða er tekin á Alþingi áður en stefnan er fastákveðin bak við luktar dyr. Því síður er kallað eftir umræðu í samfélaginu.

Vel má vera að stjórnarandstaðan hafi ekkert við tillögurnar að athuga. Það breytir ekki hinu að hafi fyrri gagnrýni á ráðherraræðið einhvern tímann átt við rök að styðjast er hún því fremur gild að því er þetta mál varðar. Þessi stefnumörkun mun hafa langtímaáhrif á hag fyrirtækja og allrar alþýðu. Tillögurnar átti því að ræða opinberlega áður en þær voru samþykktar.

Þegar horft er á efni ríkisstjórnarstefnunnar er nauðsynlegt að greina á milli markmiða og leiða að þeim. Markmiðin um að þjóna almenningi og lífvænlegum fyrirtækjum til uppbyggingar og rekstrar eru eðlileg og raunhæf. Öðru máli gegnir um sumar þeirra leiða sem ákveðnar eru og þann grundvöll í peningamálum sem gengið virðist út frá sem varanlegum veruleika.

Draga verður verulega í efa að skynsamlegt sé að ríkisvæða í einu eignarhaldsfélagi öll stærstu fyrirtæki landsins sem ramba á barmi gjaldþrots. Eðlilegt er að nýir eignaraðilar komi þar að. En ríkisvæðingin er ekki líkleg til að stuðla að hagkvæmum rekstri þegar til lengdar lætur. Sú spurning vaknar líka hvort mismuna á stærri fyrirtækjum gagnvart þeim minni. Engin grein er gerð fyrir því hvernig gæta á jafnræðis í samkeppni milli ríkisrekinna og ríkisstyrktra fyrirtækja annars vegar og hins vegar fyrirtækja sem ekki njóta styrkja eða afskrifta á kostnað ríkisins.

Stofnun sérstaks eignarhaldsfélags um ríkisbankana gæti tafið eða jafnvel gert að engu möguleika á að erlendu kröfuhafarnir komi sem allra fyrst að bönkunum sem eignaraðilar. Ekki verður séð að bankarnir fái betra lánshæfismat en ríkissjóður á næstu árum án erlendrar eignaraðildar. Flest bendir því til að ríkisbankar verði þar af leiðandi verr í stakk búnir til að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki.

Skýrt er tekið fram að starfsmenn bankanna verði að gera sér grein fyrir því að þeir eigi að þjóna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Eigi að síður er hvergi að finna tillögur um með hverjum hætti bankarnir eigi að koma til móts við vanda þeirra heimila sem sukku í skuldafenið í kjölfar þess að gjaldmiðillinn hrundi.

Í tillögum sænska sérfræðingsins, sem nú eru ríkisstjórnarstefna, er ekki tekið berum orðum fram að byggja eigi á krónunni til framtíðar. Aðrar ályktanir verða þó ekki dregnar af efni tillagnanna en að svo sé. Það þýðir að Ísland á minni möguleika en ella á að ná Norðurlandaþjóðunum aftur varðandi lífskjör.

Það góða við stefnumörkunina er að hún er nægjanlega loðin til þess að hana má laga í framkvæmd ef vilji er fyrir hendi. Í því ljósi er opin umræða óhjákvæmileg á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Alþingi á að réttu lagi að samþykkja slíka stefnu. Ekki er óhugsandi að í kjölfar umræðu á þeim vettvangi megi skýra og túlka stefnuna betur og leiðrétta í einhverjum efnum svo að hún verði trúverðug og gagnleg.






×