Lífið

Bók um sögu Safnahússins

Stórbók er komin út um Þjóðmenningarhúsið eins og það er kallað nú en lengst af var það kallað Safnahúsið.
Stórbók er komin út um Þjóðmenningarhúsið eins og það er kallað nú en lengst af var það kallað Safnahúsið.

Þjóðmenningarhúsið státar af eitt hundrað ára langri, nánast samfelldri og afar dýrmætri menningarsögu. Til að minnast 100 ára afmælisins á þessu ári var ákveðið að unnin yrði bók sem varpaði ljósi á hönnunar- og byggingasögu hússins og setti tilurð þess og aldar­langa starfsemi í sögulegt samhengi. Síðar var leitað til Eggerts Þórs Bernharðssonar sagnfræðings og honum falin ritstjórn. Þeir Guðmundur Hálfdanarson prófessor og Pétur H. Ármannsson arkitekt rita höfuðgreinarnar og fræðilega burðarása verksins og Þórunn Sigurðardóttur bókmenntafræðingur leiðir lesendur í vissu um nöfnin sem greypt eru á útveggi hússins. Verkið hefur og að geyma grein eftir ritstjóra og ýmsan fróðleik tengdan húsinu og starfseminni úr tímans rás í samantekt hans.

Birt eru brot úr verkum rithöfundanna Halldórs Laxness, Agnars Þórðarsonar, Berglindar Gunnarsdóttur, Péturs Gunnarssonar, Sigrúnar Davíðsdóttur og Þórunnar Valdimarsdóttur, sem öll geyma frásagnir úr húsinu.

Kveðjur eru frá núverandi forsvarsmönnum safnanna sem voru hér til húsa, þeim Ingibjörgu Sverrisdóttur landsbókaverði Ólafi Ásgeirsyni þjóðskjalaverði, Helga Torfasyni, safnstjóra á Náttúruminjasafni Íslands, Jóni Gunnari Óttóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði.

Á seinni hluta tíunda áratugar fyrri aldar fóru fram gagngerar endurbætur á húsinu sem grundvölluðu upphaf Þjóðmenningarhússins árið 2000 og Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt greinir frá.

Fjöldi mynda birtist í bókinni úr myndabönkum hér á landi, meðal annars úr Ljósmyndasafni Íslands og Ljósmyndasafni Reykjavíkur, en einnig erlendis. Dreifing er á höndum forlagsins Crymogea og verður bókin til sölu í bókaverslunum, í Þjóðmenningarhúsinu og í safnbúðum Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.