Körfubolti

Íslandsmeisturum hefur ekki verið „sópað" út síðan 2003

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Norðdal Hafsteinsson og aðrir Keflvíkingar berjast fyir lífi sínu í DHL-Höllinni á eftir.
Jón Norðdal Hafsteinsson og aðrir Keflvíkingar berjast fyir lífi sínu í DHL-Höllinni á eftir. Mynd/Stefán

Íslandsmeistarar Keflavíkur eiga það á hættu að vera sópað út úr úrslitakeppninni í kvöld þegar þeir heimsækja KR-inga í DHL-Höllina. KR er 2-0 yfir og kemst í lokaúrslitin með sigri í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

Það eru liðin sex ár síðan að ríkjandi Íslandsmeisturum var síðast sópað út úr úrslitakeppninni en það gerðist þegar Keflavík vann nágranna sína í Njarðvík 3-0 í undanúrslitaeinvígi liðanna árið 2003.

Gunnar Einarsson, Gunnar H. Stefánsson, Jón Norðdal Hafsteinsson og Sverrir Þór Sverrisson, tóku allir þátt í því að slá út Njarðvik fyrir sex árum en þeir gætu sjálfir fengið að kynnast þeirri tilfinningu í kvöld.

Íslandsmeisturum hefur samtals fjórum sinnum verið sópað út í 26 ára sögu úrslitakeppninnar og í öll skiptin hefur það lið, sem hefur unnið alla leikina gegn meisturunum, fagnað Íslandsmeistaratitlinum.

KR-ingar myndu þá endurtaka leikinn frá því árið 1990 þegar þeir unnu ríkjandi meistara Keflavíkur 3-0 í í lokaúrslitum og fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum. Í því liði voru formaður og ritari Körfuknattleiksdeildar KR í dag, Böðvar Guðjónsson og Lárus Árnason sem og Páll Kolbeinsson sem situr í Meistaraflokksráði.

Þetta er 28. einvígi liða Sigurðar Ingimundarsonar í úrslitakeppninni en hann hefur fyrir þennan leik stjórna Keflavíkurliðinu í 90 leikjum í úrslitakeppninni og unnið 60 þeirra.

Liðum Sigurðar hefur aðeins tvisvar sinnum verið sópað út úr úrslitakeppninni. Snæfell náði því í 8 liða úrslitum 2007 sem og Njarðvík í í lokaúrslitum árið 2002.

Íslandsmeistaralið sem hefur verið sópað út árið eftir:

1990 Keflavík (2. sæti, 0-3 tap fyrir KR)

1997 Grindavík (2. sæti, 0-3 tap fyrir Keflavík)

2001 KR (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Njarðvík)

2003 Njarðvík (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Keflavík)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×