Lífið

Jólaskemmtun í háloftunum

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir erlenda ferðamenn ánægða með jólaflugið.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir erlenda ferðamenn ánægða með jólaflugið.

Flugfélagið Iceland Express býður farþegum sínum upp á jólaskemmtun um borð í flugvélum sínum núna í tilefni jólahátíðarinnar. Farþegar fá að smakka á hangikjöti, flatbrauði og íslenskum bjór auk þess sem söngkonan Hera Björk, tónlistarmaðurinn Pálmi Sigurhjartarson og spákonan Sigríður Klingenberg munu skemmta fólki með söng og spádómum. Þá hafa vélar flugfélagsins verið skreyttar með jólaskrauti.

„Stefnan er að vera með þessi flug fram að jólum. Það hefur verið mikil ánægja á meðal fólks með þetta uppátæki og margir hafa skrifað okkur til að koma ánægju sinni á framfæri. Erlendum ferðamönnum finnst hangikjötið almennt gott og finnst gaman að fá að smakka framandi mat,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

Aðspurður segir hann skemmtikraftana hafa gaman af því að breyta aðeins til og troða upp í flugvél. „Þau hafa mjög gaman af þessu. Auðvitað er þetta minna pláss en þau eru vön, en það hefur ekki verið til vandræða hingað til.“

Flugfélagið hefur þurft að bæta fleiri vélum við áætlanaflug til Oslóar og Álaborgar þar sem fjöldi Íslendinga er á leið heim um jólin. „Það er alltaf mikið að gera í kringum jólin. Við erum með allar vélar í fullri notkun og bættum við vélum til nokkurra staða,“ segir Matthías að lokum.- sm

Á ferð og flugi Sigríður Klingenberg og Hera Björk munu skemmta farþegum Iceland Express fyrir jólin. Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, segir erlenda ferðamenn hrifna af íslenska hangikjötinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.