Lífið

Avatar kemst í metabækurnar

Rúmlega fjórtán þúsund Íslendingar sáu Avatar um síðustu helgi. Tekjurnar námu um sextán milljónum króna.
Rúmlega fjórtán þúsund Íslendingar sáu Avatar um síðustu helgi. Tekjurnar námu um sextán milljónum króna.

„Við bjuggumst við miklu en þetta er klárlega umfram gríðarlegar væntingar,“ segir Guðmundur Breiðfjörð hjá Senu.

Rúmlega fjórtán þúsund manns sáu ævintýramyndina Avatar um síðustu helgi og námu tekjurnar 16,2 milljónum króna. Þetta er stærsta frumsýningarhelgi erlendrar myndar frá upphafi á Íslandi ef framhaldsmyndir eru ekki teknar með í reikninginn. Þetta er að sama skapi fimmta stærsta opnun allra tíma á Íslandi. Aðeins Harry Potter and the Chamber of Secrets, Bond-myndin Quantum of Solace, Mýrin og Lord of the Rings: The Return of the King hafa náð meiri vinsældum. „Við erum í skýjunum vegna þess að dómarnir eru það góðir og orðsporið sem við finnum fyrir er það gott,“ segir Guðmundur sigurreifur. „Við höldum að myndin muni sexfalda sig í aðsókn. Titanic tólffaldaði sig en venjulegar Hollywood-stórmyndir þrefalda sig.“

Til að allri tölfræði sé haldið til haga þá er frumsýningar­helgi Avatar sú stærsta sem kvikmyndaframleiðandinn 20th Century Fox hefur náð á Íslandi. Bætti hún árangur Simpsons-myndarinnar um þrettán prósent. Einnig er helgin sú stærsta hjá nokkurri mynd á árinu og bætir þar árangur stórslysamyndarinnar 2012 um heil 55 prósent. Frumsýningarhelgin er jafnframt sú næststærsta í desember frá upphafi.

Alls námu tekjur Avatar í heiminum 232 milljónum dala, eða um þrjátíu milljörðum króna. Í Norður-Ameríku græddi myndin 73 milljónir dala en tæpar 160 milljónir annars staðar. Slagar það hátt upp í gífurlegan framleiðslukostnaðinn sem hljóðaði upp á 400 milljónir dala.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.