Lífið

Valin á virta stuttmyndahátíð

Hæfileikaríkur Hornfirðingur Stuttmynd Hlyns Pálmasonar hefur verið valin til að taka þátt í kvikmyndahátíð í Frakklandi.
Hæfileikaríkur Hornfirðingur Stuttmynd Hlyns Pálmasonar hefur verið valin til að taka þátt í kvikmyndahátíð í Frakklandi.

Vefsíðan rikivatnajokuls.is greindi frá því fyrir skemmstu að stuttmynd í leikstjórn Hlyns Pálmasonar hefði verið valin á árlega stuttmyndahátíð í Clermont í Frakklandi sem er ein af virtustu kvikmyndahátíðum Evrópu. Stuttmyndin ber heitið Jóel og fjallar hún um unglingsstrákinn Jóel sem reynir að komast inn í krossaraklíku.

Hlynur Pálmason hóf nám í leikstjórnun við Danska kvikmyndaskólann í haust. Hann segist lítið hafa vitað um hátíðina áður en hann sendi eintak af myndinni út til aðstandenda hennar. „Ég frétti það bara seinna að þetta væri ein af virtustu hátíðunum í Evrópu,“ segir Hlynur, en stuttmyndin Jóel mun keppa í flokki alþjóðlegra mynda.

Hlynur hefur fengið frí í skólanum til að vera viðstaddur hátíðina í lok janúar en fer einn síns liðs þar sem kærasta hans er í prófum á sama tíma. „Ég er mjög spenntur. Ég er nýbúinn að tala við einn sem hafði farið á þessa hátíð og hann sagði að þetta væri mjög skemmtilegur viðburður.“

Jóel er ekki fyrsta stuttmynd Hlyns því hann hafði áður gert myndina Posted sem vann til verðlauna hér heima og var að auki sýnd í Sjónvarpinu. Spurður hvort fleiri myndir séu í bígerð segir Hlynur svo vera. „Skólinn tekur mikinn tíma þessa dagana en ég er að undirbúa annað verkefni sem mig langar að fara af stað með í sumar. Núna er ég bara að reyna að finna nægilegt fjármagn til að láta það verða að veruleika,“ segir Hlynur að lokum.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.