Körfubolti

Ingi Þór: Ég var mjög stressaður fyrir þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Mynd/Anton
Ingi Þór Steinþórsson var mjög sáttur með sína menn eftir öruggan 20 stiga sigur á ÍR í Kennaraháskólanum í kvöld. Snæfell var með frumkvæðið allan leikinn en gerði út um leikinn með frábærum spretti í lok þriðja leikhluta.

„Ég var mjög stressaður fyrri þennan leik því það má ekki vanmeta þetta ÍR-lið. Ég var mjög ánægður hvernig liðið mitt kom til leiks. Við lentum í hindrunum eftir að hafa byrjað mjög vel. Það var síðan mjög gott hvernig við leystum leikinn," sagði Ingi Þór.

„Við höfum góða stjórn á leiknum fannst mér. Við hikstuðum fullmikið á móti svæðinu þeirra í öðrum leikhluta en við leystum það mjög vel í seinni hálfleik og fengum þá opin og fín færi. Nonni var síðan sjóðandi heitur á þessum tíma þar sem við kláruðum leikinn," sagði Ingi en Jón Ólafur Jónsson skoraði 14 af 24 stigum sínum í þriðja leikhlutanum.

„Þó svo að okkar lykilmenn hafi ekki verið að spila sinn besta leik þá fannst mér liðið vera að virka vel í heildina. Við erum að leika án Sigurðar Þorvaldssonar sem er stór póstur sem er erfitt að vera án," sagði Ingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×