Glíman við samviskuna Þorsteinn Pálsson skrifar 3. október 2009 06:00 Af kögunarhóli Þorsteins Pálssonar Hvað þýðir afsögn Ögmundar Jónassonar? Sjálfur segist hann hafa vikið af ráðherrabekknum til þess að verða ekki viðskila við samviskuna. Er það rétt? Á sama tíma heitir hann fullum stuðningi við ríkisstjórnina. Forystumenn hennar segja hins vegar að hún fari frá fái hún ekki meirihluta Alþingis til að rjúfa samkomulagið um lyktir Icesave-málsins frá því í ágúst. Fari svo að Ögmundur Jónasson og fylgismenn hans í þingflokki VG neiti að rjúfa Icesave-samkomulag Alþingis nema í sátt við alla þá sem að því stóðu segir hann satt um vegferðina með samviskunni. Greiði hann fyrir framgangi nýju Icesave-niðurstöðunnar með atkvæði sínu eða hjásetu segir hann ósatt. Þá er afsögnin í besta lagi friðþæging gagnvart samningsrofi. Enginn vafi er á að Ögmundur Jónasson styrkti pólitíska stöðu sína með því að hafa forystu um breiða samstöðu á Alþingi um Icesave-málið. Svarið við þeirri spurningu hvort afsögnin efli hann sem staðfastan stjórnmálamann fer alfarið eftir því hvaða afstöðu hann tekur þegar málið kemur til kasta þingsins á ný. Það er einfaldlega óskýrt enn sem komið er. Veikti forsætisráðherra stöðu sína með því að þvinga Ögmund Jónasson til afsagnar? Krafan um einingu í ríkisstjórninni var réttmæt. Hún kom hins vegar of seint fram. Ríkisstjórnin lenti í hafvillum með málið þegar á frumstigi. Annars vegar hefði forsætisráðherra í vor sem leið átt að taka málið upp við forsætisráðherra Bretlands og Hollands. Hins vegar hefði sú eðlilega krafa þá þegar átt að liggja ljós fyrir að einingar væri krafist í ríkisstjórninni. Icesave-málinu þurfti að ljúka með samningum. Vinnubrögðin sem nú hafa leitt til þess að ríkisstjórnin þarf að ganga á bak orða sinna bæði gagnvart viðsemjendunum og Alþingi munu á hinn bóginn hafa margvíslegar afleiðingar. Eftir þessa atburði er stjórnin líkari skipi bundnu við bryggju en fleyi á siglingu. Um réttmæti þess að semja á ný er ekki unnt að dæma fyrr en staðreyndir málsins eru opinberaðar.Málefnalegur afsláttur Augljósasta afleiðingin af Icesave-óförunum er sú að stjórnarflokkarnir munu eiga mun erfiðara með að ná saman um markvissar ráðstafanir í mikilvægum málum. Það helgast af því að örðugra verður fyrir VG að víkja frá grundvallarstefnu sinni eftir að andófshópurinn í Icesave-málinu hefur verið knúinn til að breyta samkomulaginu sem gert var á Alþingi.Þegar fyrir afsögn Ögmundar Jónassonar var komið upp á yfirborðið að VG ætlaði að bregða fæti fyrir allar framkvæmdir í orkunýtingarmálum sem kostur væri á, jafnvel með ólögmætum stjórnvaldsákvörðunum. Samfylkingin hefur þegar þurft að kyngja tafaleikjum á þessu sviði og mun þurfa að ganga lengra eftir því sem líður á stjórnarsamstarfið. Það væri í góðu lagi ef þessar framkvæmdir væru ekki einn af hornsteinum endurreisnarinnar.Við afsögn sína tók Ögmundur Jónasson tvennt fram sem lýtur að grundvelli stjórnarstefnunnar: Segja yrði upp samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hverfa yrði frá stefnunni í ríkisfjármálum á miðju næsta ári.Ólíklegt er að Ögmundur Jónasson hafi styrk til þess að knýja fram slíka kúvendingu á stjórnarstefnunni með formlegum hætti. Hitt er sennilegt að honum muni takast að hafa forystu fyrir því að í samningum stjórnarflokkanna um framgang efnahags- og ríkisfjármálastefnunnar verði veittur svo mikill afsláttur að þau markmið náist ekki sem að er stefnt. Pólitískar undirstöður endurreisnarstarfsins eru því mun veikari nú en við stjórnarmyndunina.Hvar er miðjan? Við afsögnina herti Ögmundur Jónasson mjög á þeirri einangrunarhyggju sem lengst af var einungis borin uppi af sósíalistum lengst til vinstri. Þessir atburðir munu því dýpka gjána milli stjórnarflokkanna varðandi umsókn um aðild að Evrópusambandinu.Aðildarspurningin er framtíðarmál fremur en augnabliksmál. Hún hefur þó að einu leyti bein tengsl við endurreisn efnahagslífsins. Stöðugleiki á fjármálamarkaði með frjálsum og haftalausum viðskiptum er borin von með svo lítinn gjaldmiðil sem krónan er.Stólparót efnahagshrunsins liggur í ofrisi og síðar falli gjaldmiðilsins sem var undanfari bankahrunsins. Úrslitin í endurreisnarglímunni ráðast af því hvort fólkið og fyrirtækin fá samkeppnishæfa mynt.Enginn stjórnmálaflokkur hefur enn sem komið er kynnt trúverðuga stefnu í peningamálum með íslenskri krónu. Eini sjáanlegi möguleikinn í þeim efnum er evran. Það aukna málefnavægi sem VG fær i kjölfar síðustu atburða veikir baráttuna fyrir samkeppnishæfum gjaldmiðli.Þá vaknar spurningin: Hvar er miðjan í íslenskri pólitík? Er ekki meirihluti á miðjunni fyrir nauðsynlegri aðhaldspólitík í ríkisfjármálum, brýnum orkunýtingarframkvæmdum, mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt og gildi þess að Ísland eigi aðild að öflugustu samtökum Evrópuþjóða?Ríkisstjórnin var beinlínis mynduð til að skerpa andstæður í pólitíkinni. Hún hefur öruggan þingmeirihluta til að sitja áfram í þeim tilgangi. Atburðir liðinnar viku gætu hins vegar leitt til þess að á næstu misserum verði það sjónarmið ríkara í grasrót samfélagsins að miðjunni í íslenskum stjórnmálum beri að taka höndum saman til að tryggja samstöðu og stjórnfestu við endurreisnina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Af kögunarhóli Þorsteins Pálssonar Hvað þýðir afsögn Ögmundar Jónassonar? Sjálfur segist hann hafa vikið af ráðherrabekknum til þess að verða ekki viðskila við samviskuna. Er það rétt? Á sama tíma heitir hann fullum stuðningi við ríkisstjórnina. Forystumenn hennar segja hins vegar að hún fari frá fái hún ekki meirihluta Alþingis til að rjúfa samkomulagið um lyktir Icesave-málsins frá því í ágúst. Fari svo að Ögmundur Jónasson og fylgismenn hans í þingflokki VG neiti að rjúfa Icesave-samkomulag Alþingis nema í sátt við alla þá sem að því stóðu segir hann satt um vegferðina með samviskunni. Greiði hann fyrir framgangi nýju Icesave-niðurstöðunnar með atkvæði sínu eða hjásetu segir hann ósatt. Þá er afsögnin í besta lagi friðþæging gagnvart samningsrofi. Enginn vafi er á að Ögmundur Jónasson styrkti pólitíska stöðu sína með því að hafa forystu um breiða samstöðu á Alþingi um Icesave-málið. Svarið við þeirri spurningu hvort afsögnin efli hann sem staðfastan stjórnmálamann fer alfarið eftir því hvaða afstöðu hann tekur þegar málið kemur til kasta þingsins á ný. Það er einfaldlega óskýrt enn sem komið er. Veikti forsætisráðherra stöðu sína með því að þvinga Ögmund Jónasson til afsagnar? Krafan um einingu í ríkisstjórninni var réttmæt. Hún kom hins vegar of seint fram. Ríkisstjórnin lenti í hafvillum með málið þegar á frumstigi. Annars vegar hefði forsætisráðherra í vor sem leið átt að taka málið upp við forsætisráðherra Bretlands og Hollands. Hins vegar hefði sú eðlilega krafa þá þegar átt að liggja ljós fyrir að einingar væri krafist í ríkisstjórninni. Icesave-málinu þurfti að ljúka með samningum. Vinnubrögðin sem nú hafa leitt til þess að ríkisstjórnin þarf að ganga á bak orða sinna bæði gagnvart viðsemjendunum og Alþingi munu á hinn bóginn hafa margvíslegar afleiðingar. Eftir þessa atburði er stjórnin líkari skipi bundnu við bryggju en fleyi á siglingu. Um réttmæti þess að semja á ný er ekki unnt að dæma fyrr en staðreyndir málsins eru opinberaðar.Málefnalegur afsláttur Augljósasta afleiðingin af Icesave-óförunum er sú að stjórnarflokkarnir munu eiga mun erfiðara með að ná saman um markvissar ráðstafanir í mikilvægum málum. Það helgast af því að örðugra verður fyrir VG að víkja frá grundvallarstefnu sinni eftir að andófshópurinn í Icesave-málinu hefur verið knúinn til að breyta samkomulaginu sem gert var á Alþingi.Þegar fyrir afsögn Ögmundar Jónassonar var komið upp á yfirborðið að VG ætlaði að bregða fæti fyrir allar framkvæmdir í orkunýtingarmálum sem kostur væri á, jafnvel með ólögmætum stjórnvaldsákvörðunum. Samfylkingin hefur þegar þurft að kyngja tafaleikjum á þessu sviði og mun þurfa að ganga lengra eftir því sem líður á stjórnarsamstarfið. Það væri í góðu lagi ef þessar framkvæmdir væru ekki einn af hornsteinum endurreisnarinnar.Við afsögn sína tók Ögmundur Jónasson tvennt fram sem lýtur að grundvelli stjórnarstefnunnar: Segja yrði upp samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hverfa yrði frá stefnunni í ríkisfjármálum á miðju næsta ári.Ólíklegt er að Ögmundur Jónasson hafi styrk til þess að knýja fram slíka kúvendingu á stjórnarstefnunni með formlegum hætti. Hitt er sennilegt að honum muni takast að hafa forystu fyrir því að í samningum stjórnarflokkanna um framgang efnahags- og ríkisfjármálastefnunnar verði veittur svo mikill afsláttur að þau markmið náist ekki sem að er stefnt. Pólitískar undirstöður endurreisnarstarfsins eru því mun veikari nú en við stjórnarmyndunina.Hvar er miðjan? Við afsögnina herti Ögmundur Jónasson mjög á þeirri einangrunarhyggju sem lengst af var einungis borin uppi af sósíalistum lengst til vinstri. Þessir atburðir munu því dýpka gjána milli stjórnarflokkanna varðandi umsókn um aðild að Evrópusambandinu.Aðildarspurningin er framtíðarmál fremur en augnabliksmál. Hún hefur þó að einu leyti bein tengsl við endurreisn efnahagslífsins. Stöðugleiki á fjármálamarkaði með frjálsum og haftalausum viðskiptum er borin von með svo lítinn gjaldmiðil sem krónan er.Stólparót efnahagshrunsins liggur í ofrisi og síðar falli gjaldmiðilsins sem var undanfari bankahrunsins. Úrslitin í endurreisnarglímunni ráðast af því hvort fólkið og fyrirtækin fá samkeppnishæfa mynt.Enginn stjórnmálaflokkur hefur enn sem komið er kynnt trúverðuga stefnu í peningamálum með íslenskri krónu. Eini sjáanlegi möguleikinn í þeim efnum er evran. Það aukna málefnavægi sem VG fær i kjölfar síðustu atburða veikir baráttuna fyrir samkeppnishæfum gjaldmiðli.Þá vaknar spurningin: Hvar er miðjan í íslenskri pólitík? Er ekki meirihluti á miðjunni fyrir nauðsynlegri aðhaldspólitík í ríkisfjármálum, brýnum orkunýtingarframkvæmdum, mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt og gildi þess að Ísland eigi aðild að öflugustu samtökum Evrópuþjóða?Ríkisstjórnin var beinlínis mynduð til að skerpa andstæður í pólitíkinni. Hún hefur öruggan þingmeirihluta til að sitja áfram í þeim tilgangi. Atburðir liðinnar viku gætu hins vegar leitt til þess að á næstu misserum verði það sjónarmið ríkara í grasrót samfélagsins að miðjunni í íslenskum stjórnmálum beri að taka höndum saman til að tryggja samstöðu og stjórnfestu við endurreisnina.