Körfubolti

Stjarnan mætir KR í úrslitum

Justin Shouse var stigahæstur hjá Stjörnunni í kvöld
Justin Shouse var stigahæstur hjá Stjörnunni í kvöld Mynd/Anton

Það verða Stjarnan og KR sem leika til úrslita í Subway bikar karla í körfubolta. Þetta varð ljóst í kvöld þegar Stjarnan lagði Njarðvík 83-73 í síðari undanúrslitaleik keppninnar í Ásgarði.

Þarna áttust við þjálfararnir Teitur Örlygsson hjá Stjörnunni og Valur Ingimundarson hjá Njarðvík, en þeir gerðu báðir garðinn frægan með liði Njarðvíkur á árum áður.

Stjarnan hafði frumkvæðið frá byrjun í leiknum í kvöld og hafði yfir 21-16 eftir fyrsta leikhluta. Liðið hélt fimm stiga forystu í hálfleik og bætti í forskotið í þriðja leikhlutanum.

Justin Shouse var að venju atkvæðamestur í liði Garðbæinga en hann skoraði 29 stig og gaf 8 stoðsendingar. Jovan Zdravevski skoraði 24 stig og Kjartan Atli Kjartansson 18 stig. Þá var Fannar Helgason drjúgur í teignum með 18 fráköst.

Hjá Njarðvík voru þeir Magnús Gunnarsson (29 stig) og Logi Gunnarsson (23 stig) atkvæðamestir í sóknarleiknum eins og venjulega, en þeir félagar hittu þó aðeins úr 9 af 27 tilraunum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Landsliðsmaðurinn Friðrik Stefánsson skilaði 8 stigum, 5 fráköstum og 5 villum á 34 mínútum.

KR og Stjarnan mætast í úrslitaleik Subway bikarsins í Laugardalshöll sunnudaginn 15. febrúar, en KR vann í gærkvöld sigur á Grindavík í fyrri undanúrslitaleiknum.

Fyrr í dag varð ljóst að það verða KR og Keflavík sem leika til úrslita í kvennaflokki og því eiga vesturbæingar fulltrúa í báðum flokkum í úrslitunum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×