Íslenski boltinn

Katrín: Þetta var bara ekki okkar dagur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Katrín Jónsdóttir fagnar marki með Val.
Katrín Jónsdóttir fagnar marki með Val. Mynd/Stefán

„Þetta var mjög erfitt og við vissum að við þyrftum að eiga toppleik til þess að komast áfram en það tókst því miður ekki. Við þurftum náttúrulega að taka áhættu og færa liðið framar á völlinn eftir tapið í fyrri leiknum og það bauð hættunni heim og þær ítölsku kunnu að nýta sér það.

Þetta hefði getað endað öðruvísi ef við hefðum nýtt okkar færi í fyrri hálfleiknum en þetta var bara ekki okkar dagur," sagði Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Vals og markaskorari, eftir 1-2 tap gegn Torres í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar UEFA. Torres vann fyrri leikinn 4-1 og einvígið því samanlagt 6-2.

Katrín er aftur á móti ekki sátt með leikjaniðurröðunina hjá Valsliðinu sem þýddi að Valsstúlkur þurftu að spila bikarúrslitaleik á milli leikjanna gegn Torres.

„Mér fannst svolítið undarlegt að Evrópukeppnin skildi verea tengd bikarúrslitaleik eins og raunin varð fyrir okkur. Við þurftum að spila þrjá mjög erfiða leiki á einni viku og ég vona að KSÍ hugsi sig aðeins um í framhaldinu. Hvort sem það verðum við eða eitthvað annað lið þá vona ég að enginn þurfi að lenda í þessarri stöðu aftur," sagði Katrín að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×