Lífið

Grínádeila á blekkingarheim Facebook

í skuggahverfinu Helgi Jean Claessen og Sölvi Tryggvason í Skuggahverfinu þar sem söguhetjan Hákon Karl átti íbúð.
fréttablaðið/pjetur
í skuggahverfinu Helgi Jean Claessen og Sölvi Tryggvason í Skuggahverfinu þar sem söguhetjan Hákon Karl átti íbúð. fréttablaðið/pjetur

„Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason, sem hefur sent frá sér skáldsöguna Flottastur@feisbúkk ásamt vini sínum Helga Jean Claessen. „Þetta var gert til að búa til bros eða jafnvel tvö.“

Sagan er nokkurs konar grínádeila á Facebook-síðuna þar sem fólk segir ekki endilega allan sannleikann um sjálft sig. Hún fjallar um Hákon Karl, kallaðan Hákarl, sem hefur misst PR-stöðu sína í Glitni og íbúðina í Skuggahverfinu. Hann er fluttur heim til mömmu sinnar og allt er í mínus, nema í blekkingarheimi Facebook þar sem allt er ennþá í miklum blóma.

Góðærið kemur því töluvert við sögu í bókinni og eru sumar setningarnar byggðar á ummælum frá útrásarvíkingunum, þó svo að engar þeirra séu hafðar beint eftir þeim. „Þetta er meira út frá hugarheimi ákveðinna manna og síðan er þetta fært í stílinn,“ segir Sölvi, sem er að gefa út sína fyrstu skáldsögu. Hann notar sjálfur Facebook eins og vel flestir Íslendingar og er kominn með um þúsund vini, rétt eins og aðalpersónan Hákon Karl sem er að sjálfsögðu kominn með eigin Facebook-síðu.

Helgi Jean Claessen sendi í fyrra frá sér bókina Kjammi – bara krútt sem þarf knús, þar sem hann gerði góðlátlegt grín að bókum Arnaldar Indriðasonar. Helgi segir að blekkingarlífið sem hægt sé að lifa á Facebook sé tekið föstum tökum í nýju bókinni.

„Þú getur í rauninni lifað allt öðru lífi á Facebook en þú gerir í raun og veru. Þú þarft ekki að ljúga neitt, heldur sleppa því að segja ákveðna hluti,“ segir hann. „Þetta er eiginlega blekking því þú færð aldrei rétta mynd af fólki.“- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.