Viðskipti innlent

Ólafur Ísleifsson segir hlutverk stýrivaxta orðið óljóst

Ólafur Ísleifsson lektor við Háskólann í Reykjavík segir að hlutverk stýrivaxta í íslenska hagkerfinu sé orðið óljóst. „Í núverandi gjaldeyris- og peningakerfi sem gengur út á að styðja gengi krónunnar með höftum gegna stýrivextir aukahlutverki," segir Ólafur.

Ólafur segir að ákvörðunin um að halda stýrivöxtunum óbreyttum hafi valdið vonbrigðum enda vandséð hvaða tilgangi það þjónar að halda áfram uppi hæsta vaxtastigi á byggðu bóli. Hann bendir á nokkur atriði máli sínu til stuðnings.

„Þróunin hefur orðið sú að tengsl milli stýrivaxta og almennra vaxta í bankakerfinu virðast hafa rofnað," segir Ólafur. „Bankarnir hafa tekið eigin ákvarðanir um vexti óháð því hvert stýrivaxtastigið hefur verið."

Þá nefnir Ólafur að verðbólgan stefni í eins stafs tölu og er raunar í 6,3% m.v. síðustu sex mánuði. „Ef stýrivöxtum er ætlað að fylgja verðbólgunni ætti að mega taka mið af þessari staðreynd."

Og að lokum segir Ólafur að eina handfasta tengingin sem stýrivextir hafi enn við bankakerfið komi illa niður á skuldsettum heimilum og fyrirtækjum. „Stýrivextirnir mynda gólf í ákvörðunum um dráttarvexti," segir Ólafur. „Dráttarvextir taka mið af þeim að viðbættum sjö hundraðshlutum, nú samtals 19%. Þetta þýðir að óbreyttir stýrivextir stuðla ekki að því að létta vanda þeirra sem lent hafa í vanskilum með skuldbindingar sínar," segir Ólafur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×