Rapparinn Emmsjé Gauti skaut föstum skotum að Ingó í fylgiriti Fréttablaðsins, Popp, og lagði til að það ætti að banna tónlistina hans, sérstaklega lagið Bahama.
Ingó þykir lítið til ummælanna koma. „Það er ekki hægt að taka mark á gæja sem skírir sig í höfuðið á hamborgarakeðju. Ég hef sagt það milljón sinnum áður að ég er ekki að spila fyrir Makk-Gauta eða einhvern álíka töffara. Á meðan hann er ofan í kjallara að reyna að semja frábæru tónverkin sín hef ég nóg að gera," segir hann.
„En ég myndi pottþétt mæta ef hann myndi opna hamborgarastað."Ingó er á leiðinni í fjölskyldu- og barnatúr um landið sem hefst í dag og stendur til 10. nóvember. Þar spilar hann bæði á hefðbundnum tónleikastöðum og í grunnskólum.
„Ég held að þetta verði stemning. Ég hef aðeins spilað í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu en ekkert farið út á land áður í sérstakan túr. Ég spilaði í grunnskólanum á Akranesi um daginn og það var þvílíkt gaman. Krakkarnir kunnu öll lögin."