Fastir pennar

Vonin

Þorsteinn Pálsson skrifar

Stefnuræða forsætisráðherra í byrjun þessarar viku gaf fáum tilefni til bjartsýni um vorkomu og gróanda í þjóðarbúskapnum. Samtöl forystumanna vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina voru annars eðlis. Þau eru vísir að nýrri von.

Í byrjun síðasta árs var þegar orðið ljóst að þjóðin stæði andspænis slíkum efnahagsvanda að víðtæk samvinna stjórnvalda og atvinnulífs væri nauðsynleg til að tryggja stöðugleika. Forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins tóku í samræmi við þann veruleika þegar á síðasta ári frumkvæði í þessa veru með samtölum sín á milli.

Ríkisstjórnin hefur nú verið dregin að þessu viðræðuborði. Mikið afl hefur runnið óbeislað til sjávar í pólitísku uppgjöri síðustu mánaða. Sú töf hefur verið fjárhagslega kostnaðarsöm fyrir fyrirtækin og allan almenning í landinu. Tíminn til að láta til skarar skríða er löngu kominn.

Þó að frumkvæði og hugmyndasmíð þessara stöðugleikaviðræðna liggi hjá forystumönnum vinnumarkaðarins sýnist aðkoma ríkisstjórnarinnar ekki þurfa að vera með þeim niðurlægjandi hætti sem var við þjóðarsáttina árið 1990. Árangurinn er hins vegar að miklu leyti háður því að ríkisstjórnin hverfi frá þeirri hörðu flokkslínupólitík sem boðuð var í stefnuræðunni. Hún þarf að vera opin fyrir lausnum á breiðari grunni.

Launin eru stærsta einstaka stærðin í þjóðarbúskapnum. Þróun þeirra skiptir því sköpum fyrir stöðugleika og möguleika á nýjum vexti. Í þeim efnum mun reyna á áframhaldandi ábyrga afstöðu forystumanna vferkalýðsfélaganna. En markmiðið hlýtur hins vegar að felast í því að koma af stað vexti í atvinnulífinu sem getur orðið forsenda launabóta.

Sumar greinar eiga hægar um vik en aðrar að draga vagninn í þeim efnum. Á síðustu árum voru það milliliðirnir sem leiddu launaþróunina. Sjávarútvegurinn var að komast í þá stöðu að taka á ný við því kefli. Sviptingarstefnan sem ríkisstjórnin kynnti á dögunum sneri því blaði við á einni svipstundu. Að þeirri stefnu óbreyttri er engin atvinnugrein í þeirri stöðu. Það er óviðunandi bæði fyrir launafólk og atvinnulífið.

Eitt af lykilatriðunum til að ná stöðugleika felst í að tryggja sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi. Það kallar á tilslakanir á hinni hörðu flokkslínu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Þó að lágt gengi krónunnar hjálpi útflutningsgreinunum eins og sakir standa er það andstætt hagsmunum launafólks. Þar af leiðandi er það ekki ásættanlegt markmið.

Peningastefnan og aðferðir við endurreisn bankanna eru einnig hluti af stöðugleikaumhverfinu. Ákveðnar grunnstoðir velferðarkerfisins hljóta einnig að koma til kasta slíkra viðræðna. Eðlilegt er að verkalýðsfélögin horfi til þess viðfangsefnis í ljósi rekstrarvanda ríkissjóðs. Vel færi aukheldur á því að vinnumarkaðurinn rétti ríkisstjórninni hjálparhönd með það verkefni.

Stöðugleikaviðræður á þessum vettvangi væru einnig hálf marklausar ef þær tækju ekki til mögulegrar samstöðu um samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Heildarhagsmunir launafólks og atvinnulífs af aðild og myntsamstarfi eru ótvíræðir. Það hagsmunamat kallar á nokkurn sveigjanleika af hálfu sjávarútvegs og landbúnaðar. Það er ekki bara ríkisstjórnin sem þarf að slaka á harðlínustefnu.

Samstarf af þessu tagi getur eitt gefið nýja viðspyrnu og von.








×